150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

fjölmiðlanefnd.

[15:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og það hversu duglegur hann er að vinna að málefnum fjölmiðla og hvernig við getum bætt starfsumhverfi þeirra. Eins og kemur skýrt fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hefur ríkisstjórnin hug á því að styðja við rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla til að efla þá. Við vitum mætavel að allt sem tengist fjölmiðlum í dag er gjörbreytt, m.a. bara út af þeirri upplýsinga-, tækni- og samskiptabyltingu sem við erum stödd í, þannig að það er alveg ljóst að við þurfum að gera betur hvað það varðar, enda er frumvarp á leiðinni inn í þingið þess efnis.

Hvað varðar fyrirspurn hv. þingmanns hef ég í hyggju að endurskoða fjölmiðlalögin, m.a. vegna þessara ábendinga. Að mínu viti er mjög bagalegt að Blaðamannafélag Íslands og fjölmiðlanefnd hafi staðið í þessum deilum og segja má að það hafi dregið svolítið til tíðinda vegna þessa. Við þurfum að hafa sama skilning og sömu nálgun á 26. gr. Ég svara því játandi að ég hafi í hyggju að endurskoða lögin, m.a. líka vegna þeirra hröðu breytinga sem eru að eiga sér stað. Við þurfum að vera á tánum og ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með fyrirspurnina og brýna ráðherrann til góðra verka.