150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[16:01]
Horfa

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég þakka fyrir þann stuðning og skilning sem hv. þingmaður sýnir þessu máli. Ég vil líka varpa ljósi á það að ég veit að sá þingmaður þekkir þessi mál afskaplega vel úr fyrri störfum og mér þykir vænt um hans stuðning í þessu máli. Varðandi það hvort hópurinn sé of stór er hér gert ráð fyrir að níu manns sitji í þeirri nefnd sem hafi þetta hlutverk. Ég læt það svo sem bara í hendur nefndarinnar að meta hvort fækka þurfi í þeim hópi. Mér finnst það í sjálfu sér ekkert of stór nefnd en það er ekkert stórmál í mínum huga hvort hún sé aðeins minni. Ég held að það sé hins vegar mjög mikilvægt að við fáum svolítið breiða aðkomu að nefndinni, hvort sem menn eru formlega í hópnum eða ekki, og þá á ég ekki síst við að það þarf að hlusta á eldri borgarana sjálfa, ekki bara sérfræðingana. Auðvitað þarf að hlusta á þá en það þarf líka að hlusta á það fólk sem þetta mál nær til.

Varðandi aðgerðaáætlun tek ég algjörlega undir það, þetta er því tvíþætt. Það þarf að rannsaka og greina vandann og meta umfangið en sömuleiðis þarf að koma með tillögur að aðgerðum og þær þurfa að fylgja með. Það þingmál sem ég legg hér fram er með tvíþættum tilgangi en ekki síst er það lagt fram í þeim tilgangi að fá upp umræðu um þessi mál.

Eins og ég gat um í framsöguræðu minni er vandinn ærinn og hann mun bara aukast. Við þurfum að bregðast við með einhverjum hætti og ég held að öll umræða um þunglyndi, einmanaleika, lífsleiða, sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir sé af hinu góða með þeim uppbyggilega hætti sem ég held að við getum öll einhent okkur í að stunda. Þetta er vandi sem nær til stórs hóps, ekki bara til þeirra sem eru að kljást við þunglyndi heldur líka til allra þeirra sem standa nálægt þeim einstaklingi sem er að ganga í gegnum andlega vanlíðan.