150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[16:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og tek heils hugar undir það með þingmanninum að umræðan er alveg gríðarlega mikilvæg. Það er alveg gríðarlega mikilvægt að við víkjum okkur ekki undan því að tala um mál sem jafnvel geta verið óþægileg eða lítið „sexý“, sem svo er kallað — ég bið forseta afsökunar á þessari slettu. En það er einmitt þannig með mjög mörg mál er snúa að málefnum eldra fólks, að tilhneigingin er svolítið: Já, æ, eigum við að vera að eyða tíma í að tala um þetta? En auðvitað eigum við að gera það. Þessi hópur á athygli okkar skilda nákvæmlega á sama hátt og aðrir þjóðfélagshópar og þess vegna er svo mikilvægt að flutningsmenn komi með þetta mál og beri það upp.

Mig langar aðeins að velta upp tveimur punktum í viðbót við það sem hv. þingmaður sagði, annars vegar um það sem snýr að menntun heilbrigðisstétta og ákveðinni vitundarvakningu heilbrigðisstétta um þunglyndi og þunglyndiseinkenni hjá eldra fólki. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé haft þarna inni vegna þess að stundum, eins og þingmaðurinn kom að í ræðu sinni, sigla þessi mál svolítið undir radarinn hjá fólki. Það tekur jafnvel ekki eftir þeim. Hitt atriðið sem mig langar aðeins að nefna er að ég tel að fyrsta stoppið í þessum málum eigi að vera hjá heilsugæslunni og í því sambandi nefni ég heilsueflandi heimsóknir sem hæstv. heilbrigðisráðherra er nú að tala um og er verið að koma af stað. Þar eigum við að finna þetta fólk og við eigum að grípa inn í þar og reyna að hjálpa því á þeim vettvangi fyrst, því að það er væntanlega þangað sem flestir koma, a.m.k. einhvern tíma.

(Forseti (ÞorS): Forseti bendir hv. þingmanni á orðatiltækið „lítt til vinsælda fallinn“.)