150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[16:05]
Horfa

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla bara stuttlega að bregðast við þessu. Ég tek að sjálfsögðu undir orð hv. þingmanns, það þarf að huga að vitundarvakningu og menntun heilbrigðisstétta til að sjá vandann. Í allt of mörgum tilvikum gæti þessi vandi, þunglyndi eldri borgara, farið fram hjá fólki. Það hefur einfaldlega verið talið að þetta væri eðlilegur fylgifiskur öldrunar, sem þetta er ekki. Það að eldast eru forréttindi og við eigum að hátta málum þannig að fólki líði vel.

Það eru svo margar leiðir færar til að bregðast við þunglyndi. Eins og ég gat um áðan getur þunglyndi verið lífshættulegt en í langflestum tilvikum er hægt að bregðast við með einum eða öðrum hætti. Þá er þekking heilbrigðisstarfsfólks og þeirra sem standa nálægt þessum hópi lykilatriði, bæði til að greina að um þunglyndi sé að ræða og ekki má rugla því saman við að fólk sé að eldast. Þunglyndi er, eins og ég segi, læknanlegur sjúkdómur í langflestum tilvikum, eftir því sem ég best veit, og þess vegna skiptir máli að við höfum langan lista af úrræðum, bæði lyfjameðferð en líka samtalsmeðferð, hreyfingu o.s.frv. Það eru svo margar leiðir til að láta fólki líða betur.

Maður er manns gaman. Þetta snýst líka um að eldra fólk einangrist ekki. Við þekkjum það öll í okkar fjölskyldu með eldri borgara sem einangrast og það er niðurdrepandi þegar maður er kannski einn inni á stofnun eða einn heima hjá sér og samneyti við annað fólk fer í algjört lágmark. Þetta eigum við, ekki bara hið opinbera, að horfast í augu við, allar fjölskyldur eiga að huga að því. Við eigum öll að huga að því hvernig þeim eldri borgurum sem standa okkur næst líður. Við getum öll gert betur við að sinna okkar eldri ættingjum eða vinum, hvernig sem það er, til að brjóta aðeins upp hversdagsleikann og láta fólki líða betur. Þetta á auðvitað við um alla aldursflokka en það er sérstök ástæða að mínu mati, herra forseti, til að skoða núna þunglyndi eldri borgara sem hefur of lengi verið hunsað.