150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[16:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir þessa þingsályktunartillögu um rannsóknir á þunglyndi eldri borgara. Ég tek heils hugar undir að þetta þarf að gera. Ég ætla hins vegar að fara inn á annan punkt miðað við það að verið var að kvarta undan fjölda í þessari nefnd. Ég vil þvert á móti bæta fólki við og mér finnst vanta í hana fulltrúa frá Öryrkjabandalagi Íslands. Það er að vísu viðurkennt að þegar öryrki verður eldri borgari hættir hann að vera öryrki og verður frískur í boði ríkisins. Það eitt og sér að vera öryrki og verða eldri borgari veldur þunglyndi vegna þess að það skerðir strax tekjur stórlega. Þess vegna ætti fulltrúi þeirra sannarlega að vera í nefndinni.

Einnig hefur verið komið inn á að það veldur örugglega alvarlegu þunglyndi hjá eldri borgurum að 10% þeirra lifa við fátækt. Síðan eru önnur 10% á mörkum fátæktar samkvæmt upplýsingum frá Félagi eldri borgara. Þeir sem gleymast í þessari tölu eru þeir sem búa við sárafátækt á meðal eldri borgara. Það eru aðallega íslenskir ríkisborgarar af erlendum uppruna sem fá búsetuskerðingar og eiga að lifa á svo til engum tekjum.

Fram undan er síðan óvissa í sambandi við sjúkraþjálfun sem veldur mér áhyggjum. Nú á að fara að bjóða sjúkraþjálfun út og búa til kvótakerfi. Langvarandi stoðkerfisvandamál leiða alveg örugglega til þunglyndis og það þarf að efla sjúkraþjálfun en ekki draga úr henni eins og útlit er fyrir að verði. Við höfum líka orðið vitni að því undanfarið í kerfinu að eldri hjón eru aðskilin þegar annað þeirra þarf að fara á hjúkrunarheimili eða sjúkrastofnun. Það er gjörsamlega óásættanlegt þegar einstaklingur sem er með öllu ófær um að sjá um sig sjálfur er sendur heim og makinn, sem er kannski í engu ástandi til að taka við viðkomandi, þarf að fara að hugsa um veikan maka sinn. Það getur valdið mörgum vandamálum og alveg örugglega þunglyndi.

Við verðum að átta okkur á því að ótakmörkuð lyfjagjöf vegna biðlista eftir aðgerðum veldur alvarlegu þunglyndi. Það er grafalvarlegt mál þegar eldri borgarar þurfa að bíða mánuðum og jafnvel árum saman eftir aðgerðum sem þeir þurfa nauðsynlega á að halda en fá í staðinn ótakmarkað af verkjalyfjum og öðrum lyfjum. Það er vitað mál að viðkomandi myndar þol og þarf þar af leiðandi alltaf meira og meira af lyfjum. Við þurfum að sjá til þess að fólk gleymist ekki á biðlistum eins og gerist.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra en tek heils hugar undir þessa þingsályktunartillögu og vona að í meðförum velferðarnefndar sem ég reikna með að fái málið verði hægt að bæta í hópinn fulltrúa frá Öryrkjabandalaginu. Ég vona að við tökum á þessu þar og vinnum að málinu þannig að það komist aftur til þingsins og verði samþykkt.