150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[16:19]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir þessa góðu þingsályktunartillögu. Hún er sannarlega þess virði að henni sé fylgt eftir. Mig langar til að nefna að á síðasta löggjafarþingi mælti ég fyrir því að komið yrði á fót embætti hagsmunafulltrúa fyrir aldraða. Það mál mun ég flytja aftur á þessu þingi, enda búið að vera gegnumgangandi í ein átta eða tíu löggjafarþing að ýmist hefur verið kallað eftir umboðsmanni aldraðra eða einhverjum fulltrúa aldraðra. Í þessu tilviki höfum við kallað eftir hagsmunafulltrúa aldraðra. Þar er ekki verið að tala um níu manna stjórn heldur mjög svo ábyrgðarmikið embætti sem á einmitt að halda utan mál aldraða, ekki bara hvað lýtur að réttindum þeirra og hvar þeir eru staddir gagnvart stjórnsýslunni heldur á hann líka að hafa frumkvæðisathugun gagnvart öllum eldri borgurum sem vitað er að búa einir og eru staddir í þeirri einangrunarvist sem þeir margir hverjir eru í. Það er staðreynd og þar talar maður af reynslu. Við vitum það læknisfræðilega að aldrinum fylgir hrörnun á öllum sviðum. Það er bara staðreynd. Þar á meðal hrörnun heilastarfseminnar. Serótónín dregst saman. Það er afskaplega mikilvægt að eldri borgurum sem eru farnir að finna fyrir einkennum kvíða og þunglyndis og vilja eiginlega varla fara út úr húsi sé fylgt eftir og reynt að koma til móts við t.d. nákvæmlega þetta, vöntun á serótóníni. Það eru til lyf og það er alltaf réttlætanlegt að taka lyf þegar við virkilega þurfum á þeim að halda.

Í þessu tilviki erum að tala um einangrun og það er sárara en tárum taki að horfa upp á hversu víðtækt þetta er og hvernig eldri borgarar hreinlega gleymast. Þeir gleymast nánast einir heima, samanber úttekt sem gerð var á efnahagslegri stöðu eldri borgara, ekki bara félagslegri stöðu heldur einnig efnahagslegri. Þar var verið að rannsaka og gera úttekt, fyrir doktorsritgerð, að ég held, á aðbúnaði eldri borgara sem búa einir heima eftir heimkomu af sjúkrahúsi. 13 einstaklingar voru í þýðinu og í ljós kom að allir 13 liðu næringarskort. Það voru ekki 10% af þeim eða 70% eða 90% heldur 100% af 13 einstaklingum í úttektarhópnum. Þeir liðu allir næringarskort.

Auðvitað fagnar maður öllu sem er gert í þessum efnum til að reyna að koma til móts við roskið fólk. Staðreyndin er líka sú að með aldrinum kemur ekki bara kvíði og þunglyndi heldur vill eldra fólk ekki vera fyrir. Eldra fólk, pabbar okkar og mömmur á milli áttræðs og níræðs vilja ekki ónáða okkur. Þau halda að þau séu að trufla okkur af því að við höfum svo mikið að gera. Og það er sorglegt hvað það er ríkt í fólki að einangra sig sjálft ósjálfrátt vegna þess að við erum ekki nógu dugleg að fylgja því eftir, ef fólk þá hefur bakland og fjölskyldu. Við erum ekki nógu dugleg að hugsa um fullorðna fólkið. Það stendur upp á okkur líka að gera betur. Bara það að hver fjölskylda hugsi um sinn eldri borgara, pabba sinn og mömmu sína, afa sinn og ömmu sína, að við lofum að finnast þau ekki nánast fyrir og að við segjumst ekki hafa tíma því að við höfum svo rosalega mikið að gera að við sinnum þeim ekki. Það er í svo mörg horn að líta.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem Flokkur fólksins hefur mælt fyrir og mun mæla aftur fyrir á þessu löggjafarþingi, um hagsmunafulltrúa aldraðra, segir það sig sjálft að ef hann sinnir frumkvæðisvinnu og skrásetur stöðuna er það kannski sambærilegt því sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sér fyrir sér með því að skipa þennan níu manna starfshóp. Hagsmunafulltrúi aldraðra á að vera viðvarandi. Það er enginn starfshópur sem á að taka út eitthvað í þetta sinnið heldur mun hagsmunafulltrúi aldraðra alltaf vera til staðar. Auðvitað væri frábært að við tækjum saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum, og gerðum hvort tveggja. Í fyrsta lagi væri hagsmunafulltrúi aldraðra og hann hefði síðan þennan stýrihóp sem á að mynda til þess að hjálpa sér við að skilgreina stöðu eldri borgara. Það hefur sýnt sig í litlum sveitarfélögum úti á landi þar sem er kannski ekki mikið um hvatningu til félagslegra starfa að þar er virkileg einangrun. Ég tala þar bara um minn eigin pabba sem verður níræður á næsta ári, maður sem fyrir tveimur árum var að veiða og tína ber en allt í einu núna, þó að hann sé líkamlega heilbrigður, fæ ég hann ekki til að koma í heimsókn til Reykjavíkur af því að hann miklar fyrir sér að fara út úr húsi, út fyrir bæjarmörkin. Þetta stendur manni nærri, alveg sama hvað maður reynir, þegar maður horfir upp á eigin ástvini lenda í einmitt því sem ég horfi upp á minn eigin föður gera.

Það er mér mikið hjartans mál, eins og ég held að hljóti að vera okkur öllum, að halda utan um þá sem eru búnir að koma okkur til manns og gera okkur að því sem við erum í dag. Það er vel að við skulum vera farin að lifa lengur — mikið afskaplega er það nú skemmtilegt að við skulum geta verið það bjartsýn á að búast við því að verða 100 ára — svo framarlega sem við erum hress og spræk. Þá skiptir miklu máli að okkur líði andlega vel. Auðvitað verðum við aldrei 100 ára ef við liggjum í þunglyndi og líður endalaust illa. Við viljum ekki einu sinni verða 100 ára undir þeim kringumstæðum. Það er ekki bara félagslegi þátturinn sem er gjörsamlega að ganga frá allt of mörgu af fullorðnu fólki heldur hin ótrúlega fátækt sem allt of margir eldri borgarar búa við, hinn mikli kvíði sem fylgir því að geta ekki leyst út blóðþrýstingslyfin, geta ekki leyst út lyfin sín. Hugsið ykkur. Þau standa frammi fyrir því. Ég þekki það. Fullt af eldri borgurum hefur komið til mín og grátið í fangið á mér af því að þau geta ekki keypt lyfin sín. Hvers lags samfélag er þetta? Og hvað leiðir það af sér? Það leiðir af sér, virðulegi forseti, að fólk sem er búið að berjast í gegnum lífið er á efri árum í þeirri stöðu að finna engan tilgang og geta ekki einu sinni fjárfest í lyfjunum sem eru því lífsnauðsynleg.

Það er í svo mörg horn að líta og þess vegna tel ég mjög mikilvægt akkúrat í umræðu um þessa þingsályktunartillögu, sem ég styð heils hugar, að við festum hagsmunafulltrúann algjörlega í sessi. Hann mun kortleggja þetta svo að við getum virkilega beitt okkur til að breyta til framtíðar þeirri stöðu sem uppi er. Ég efast ekki um að við getum dregið gríðarlega úr kvíða og þunglyndi aldraðra með því að sýna í verki að það sé akkúrat það sem við viljum og getum.

Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir þessa góðu tillögu. Það er engin spurning að hún er studd heils hugar af Flokki fólksins.