150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[16:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir tillögu hans sem er þörf og góð. Ég vil einnig þakka þær ræður sem hafa verið fluttar og samhljóm meðal þingmanna um mikilvægi þessa máls. Við Miðflokksmenn styðjum það heils hugar. Það sem ég vildi beina sjónum sérstaklega að er atvinnuþátttaka eldra fólks. Margt athyglisvert kemur fram í greinargerðinni um leit að leiðum sem séu best fallnar til þess að koma í veg fyrir þunglyndi meðal eldri borgara. Ég tel að atvinnuþátttaka eldri borgara skipi töluvert stóran sess í því að vinna gegn depurð sem því miður virðist ná tökum á stórum hluta eldra fólks, ef marka má rannsóknir. Í greinargerðinni segir að allt að 30% aldraðra sem leita til heimilislæknis hafi veruleg þunglyndiseinkenni. Það eru gríðarlega háar tölur. Þær sýna alvarleika málsins og nauðsyn þess að taka á því. Einnig er athyglisverður kafli í greinargerð sem heitir Sérstaða þunglyndis eldri borgara. Þar eru taldir upp þættir sem nefndir hafa verið í ræðum og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson nefndi sérstaklega.

Ég vil staldra við þar sem talað er um missi maka eftir langt hjónaband, einmanaleika, verkefnaleysi og óvirkni. Ég tel, herra forseti, að þetta séu vanmetnir þættir vandans. Það er verið að leggja stein í götu eldri borgara við að afla sér tekna og vera úti á vinnumarkaðnum. Þess vegna er afar brýnt, og við höfum talað fyrir því í Miðflokknum, að draga verulega úr skerðingu lífeyrisgreiðslna vegna atvinnutekna eldri borgara. Miðflokkurinn hefur flutt tillögur þess efnis í þinginu að atvinnutekjur skerði ekki lífeyrisgreiðslur og auk þess tillögu um að hækka starfslokaaldur ríkisstarfsmanna þannig að þeir megi vinna til 73 ára aldurs. Þetta eru allt tillögur sem miða að því að gefa eldri borgurum kost á að vera lengur á vinnumarkaði. Það er lýðheilsumál. Þegar eldra fólk hættir á vinnumarkaði og fer á eftirlaun, eins og hefur komið fram í ræðum, koma vissulega til áhyggjur út af fjárhagsmálum, auk þess að hafa ekki því að sinna að sækja vinnu, sem fólk hefur kannski gert áratugum saman. Rútína lífsins breytist og það getur haft þau áhrif að yfir fólk hellist depurð og lífsleiði, sem er mjög brýnt að vinna á.

Varðandi atvinnuþátttöku eldra fólks er rétt að halda því til haga að búið er að sýna fram á með útreikningum að ríkissjóður hagnast í raun á þeirri ráðstöfun þegar upp er staðið og tillit tekið til þess að auknar tekjur og veltuskattar skila sér inn í hagkerfið á móti þegar eldri borgarar eru komnir út á vinnumarkaðinn. Það er staðreynd að margir eldri borgarar vilja vinna lengur og þá á ríkisvaldið ekki að leggja stein í götu þeirra. Það er skoðun okkar í Miðflokknum og við höfum barist fyrir því. Það á ekki að líta á vinnu sem einhvers konar refsingu. Það verður að veita eldri borgurum með tekjur undir framfærsluviðmiði verulegan skattafslátt. Það er líka leið til að vinna gegn mismunun, sem við viljum kalla svo.

Talið er, og að ég held haft eftir rannsóknum, að þrír af hverjum fjórum eldri borgurum á eftirlaunum hérlendis nái ekki neysluviðmiði velferðarráðuneytisins. Það er að sjálfsögðu mjög alvarlegt mál. Einnig hefur komið fram í rannsóknum að allt að 30% eldri borgara gætu hugsað sér að vinna ef það hefði ekki áhrif á bótarétt þeirra. Ef við setjum það í samhengi eru þetta 30% fólks á aldrinum 65–71 árs eða á bilinu 5.000–6.000 manns þannig að þetta er mikill fjöldi. Þó að það sé reyndar ólíklegt að allir gætu hugsað sér að vinna er sterk vísbending um að tiltölulega margir myndu vilja hefja launað starf eða að fá að vera á vinnumarkaði áfram. Það hefur líka komið fram í rannsóknum að það starfshlutfall sem hentar best eldra fólki er í kringum 50%. Einnig hefur komið fram að margir horfa til verslunarstarfa og það er athyglisvert vegna þess að það hefur einmitt verið skortur á starfsfólki í þeim geira og þar væri kjörið að gefa eldri borgurum tækifæri. Þess eru dæmi að t.d. byggingarvöruverslanir hafa ráðið eldra fólk til starfa og það verður að segjast eins og er að eldri borgarar hafa sinnt því mjög vel og eru almennt þjónustulundaðir þannig að hér eru á ferðinni góðir og lífsreyndir starfskraftar.

Ef hætt yrði að tengja bætur við atvinnutekjur eins og gert er í dag hefði það eiginlega tvenns konar áhrif á stöðu ríkissjóðs. Í fyrsta lagi aukast bæturnar. Á hinn bóginn vinnur fólk að líkindum meira og það eykur skatttekjur í ríkissjóð. Aldurssamsetning þeirra sem búa hér á landi er að breytast eins og við þekkjum og hlutfall þeirra sem eru eldri fer vaxandi. Þess vegna er brýnt að við tökum á þessu. Við þekkjum það að áhugi eldra fólks á atvinnuþátttöku skýrist m.a. af bættu heilsufari eldri borgara, sem er að sjálfsögðu mjög jákvætt, og ævilíkur eru auknar.

Þetta er eitt af mikilvægustu hagsmunamálum eldri borgara þannig að ég verð að segja að það er alveg nauðsynlegt í þessari brýnu umræðu að átta sig á að til eru leiðir sem gætu lagað stöðuna tiltölulega hratt og vel, þ.e. að gefa eldri borgurum færi á því að vera lengur á vinnumarkaði eins og hverjum og einum hentar. Það skiptir töluverðu máli. Ég er sannfærður um að það geti verið hagur beggja, einnig atvinnuveitanda, að fá t.d. eldra fólk í hlutastörf.

Að lokum, herra forseti, tel ég brýnt að við greiðum fyrir þessum mikilvæga þætti, atvinnuþátttöku eldra fólks, og að hún hafi ekki önnur áhrif en þau að þeir greiði skatt af launum sínum eins og aðrir. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu tillögu og þær ágætu umræður sem hafa farið fram um hana.