150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[16:56]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom hingað upp sérstaklega til þess að gleðja hv. þm. Birgi Þórarinsson. Ég sé að hann og málflutningur hans er alveg í takti við þann sem við í Flokki fólksins höfum haft uppi hvað varðar atvinnuþátttöku aldraðra. Við lögðum fram þingsályktunartillögu á síðasta löggjafarþingi sem laut að því að ekki skyldi skerða eldri borgara vegna launatekna. Í greinargerðinni með málinu byggðum við á vel ígrundaðri úttekt og útreikningum sem benda til þess að í rauninni muni ríkissjóður frekar hafa af þessu fjárhagslegan hag, eða á bilinu 1,2–3 milljarða kr., fyrir utan það sem felst í því, eins og hv. þingmaður réttilega bendir á, og við höfum verið að tala um hér í dag, að það er lýðheilsumál fyrir aldraða að fá að vinna. Staðreyndin er sú að okkur fer mjög mikið aftur um leið og við setjumst í helgan stein á efri árum. Það eru meiri líkur á því að við einangrumst og allt það.

Þetta er eitt af þeim málum sem við sömdum um í vor. Hæstv. félags- og barnamálaráðherra skipaði hóp sem heldur utan um þennan þátt, atvinnuþátttöku aldraðra án skerðinga, og hvort þeir útreikningar sem við höfum lagt til grundvallar frá ágætum stjórnsýslufræðingi, Hauki Arnþórssyni, séu réttir. Við bíðum náttúrlega eftir því. Mér skilst að niðurstaða úr þessari rannsókn á vegum ráðherra verði komin í ljós í mars eða apríl á næsta ári.