150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[16:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og hef svo sem ekki miklu við orð hennar að bæta. Við erum hjartanlega sammála um mikilvægi þessa máls. Það er mikilvægt að þingmenn standi saman um að gefa eldra fólki tækifæri til að vera lengur á vinnumarkaði. Það hefur sýnt sig að þetta er mikið hjartans mál hjá allt að 30% eldri borgara sem gætu hugsað sér að vinna með einhverjum hætti. Síðan er það bara þannig að vinnan göfgar manninn eins og oft er sagt. Hinn félagslegi þáttur skiptir miklu máli, að fólk geti verið innan um annað fólk og gert gagn eins og sagt er, sem léttir lundina hjá fólki.

Við þetta má bæta, herra forseti, að við þurfum líka að vinna að ákveðinni viðhorfsbreytingu gagnvart eldra fólki. Því miður hefur sýnt sig að virðing, sem ég vil svo kalla, gagnvart eldra fólki fer þverrandi hér í samfélaginu og fleiri samfélögum og það er miður. Þetta er sú kynslóð sem við eigum mikið að þakka og eigum að sýna ákveðna virðingu. Varðandi atvinnuþátttöku er t.d. alltaf spurt um aldur þegar fólk sækir um störf. Ef viðkomandi er nú kannski að nálgast sjötugt er umsókninni, held ég, bara mjög oft ýtt til hliðar og það er miður. Ég þekki til þess að í Bandaríkjunum er óheimilt að spyrja um aldur þegar fólk sækir um vinnu. Hér á landi er eiginlega ekki hægt að komast hjá því að atvinnurekendur sjái hvað umsækjandi er gamall vegna þess að það þarf að gefa upp kennitölu. Það er umhugsunarefni hvort það eigi ekki bara að skoða þessi mál, að það eigi ekki (Forseti hringir.) að vera hægt að mismuna vegna aldurs.