150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[17:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Í andsvari mínu áðan fólst ekki nein bein spurning. Ég vildi bara gjarnan taka undir með hv. þm. Birgi Þórarinssyni og því sem hann hafði að segja og nú geri ég það aftur. Ég veit ekki betur en að við höfum heyrt það frá mjög mörgum virtum þjóðfélagsþegnum sem hafa kannski dottið út úr sínu fasta starfi og eru komnir yfir fimmtugt, kennitalan sýnir að viðkomandi er fæddur einhvern tímann eftir 1960, hugsið ykkur, og þá er það bara: „The kennitala says no“, segir bara nei. Maður fær ekki einu sinni að fara í viðtal og á erfitt uppdráttar. Hvorki ég né hv. þingmaður hefðum átt auðvelt með að velja okkur starf úti í samfélaginu miðað við kennitölurnar okkar, þótt þetta séu náttúrlega frábærar kennitölur. Ég efast ekkert um það. En betur má ef duga skal. Við þurfum virkilega að taka utan um það sem við erum að gera hér og nú. Ég finn að með þeirri umræðu sem hefur ítrekað orðið á Alþingi er að verða mun meiri vakning í þá átt að við verðum að gera betur.

Ég þakka aftur hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir að koma með þessa frábæru þingsályktunartillögu sem ég veit að við eigum eftir að bera á höndum okkar í gegnum þingið.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska.)