150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[17:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og vil kannski bæta við að það er rétt sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega með aldurshópinn 50 og eldri, að það sé orðið erfitt að fá vinnu þegar maður hefur náð þeim áfanga í lífinu, þeim ágæta áfanga. Við í Miðflokknum komum í þessari viku til með að standa fyrir sérstakri umræðu í þinginu um atvinnuþátttöku þeirra sem eru orðnir 50 ára. Það er hv. þm. Karl Gauti Hjaltason sem stendur fyrir þeirri umræðu og verður fróðlegt að hlýða á hana. Þetta er mál sem er mjög mikilvægt í samfélaginu og lýtur einnig að þeim hópi sem við erum að ræða hér sérstaklega, að greiða götu þessa fólks til atvinnuþátttöku og mismuna ekki vegna aldurs. Það er náttúrlega eitthvað sem þingheimur á allur að sammælast um. Það á ekki að viðgangast og finna þarf leiðir til þess að svo verði ekki vegna þess að þetta hefur áhrif á andlega líðan fólks og kostar samfélagið mjög mikið þegar upp er staðið. Þingsályktunartillagan sem við ræðum hér sérstaklega er mikið lýðheilsumál og ég fagna henni.