150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

starfsemi smálánafyrirtækja.

14. mál
[19:09]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Nirði Sigurðssyni fyrir framsögu hans í þessu nauðsynlega máli svo ekki sé fastar að orði kveðið. Ég tek undir nánast hvert orð sem hv. þm. Bjarkey Olsen sagði. Nú erum við nýbúin að innleiða persónuverndarlög sem gera það að verkum að ég fæ varla að vita hvað maðurinn minn heitir nema hann skrifi upp á heimild handa mér til þess. Eins og hv. þm. Bjarkey Olsen bendir réttilega á erum við einhverra hluta vegna með fyrirtæki sem heitir Creditinfo sem hefur undanþágu gagnvart öllu því sem við köllum persónuvernd. Ef ég tek 20.000 kr. smálán eru af því gríðarlegir vextir eins og hv. þingmaður nefnir en það eru ekki bara hundruð prósentna heldur eru þúsundir prósentna lagðar ofan á lánið og síðan getur smálánafyrirtækið eiginlega vaðið inn á bankareikning viðkomandi og skuldfært út af honum með pompi og prakt, með vöxtum upp á þúsundir prósentna, eins og ég hef margsinnis orðið vitni að hjá fólki sem hefur hringt hágrátandi í mig. Staðreyndin er sú að það hlýtur að vera eitthvað stórkostlega mikið að. Við erum í góðri trú í bankanum okkar og höldum að reikningurinn okkar sé bara okkar en ekki smálánafyrirtækisins, Creditinfo eða nokkurs annars. Við eigum að vera vernduð með inneign okkar og þær krónur sem við eigum þar. Einhvers staðar í skilmálunum hakar lántaki við: Ég samþykki. Ég samþykki allt.

Ég vísa endalaust í hv. þm. Bjarkeyju Olsen vegna þess að hún er sú eina sem hefur rætt nákvæmlega þetta, að langstærsti hlutinn af þeim sem haka við les ekki 170 blaðsíður af smáu letri um skilmálana sem þeir eru að kvitta upp á. Þarna ýkti ég blaðsíðufjöldann því að manni fellur allur ketill í eld þegar maður sér þessa strollu af smáu letri um það sem maður ætlar að samþykkja eða ekki.

Í raun er líka ástæða til þess að við tökum sérstaklega út fyrir sviga þann þjóðfélagshóp sem nýtir sér smálán. Hverjir skyldu það vera? Eru það þeir sem eru borgunarmenn fyrir smáláninu yfir höfuð? Nei, væntanlega ekki. Ef þeir væru borgunarmenn færu þeir í bankann, ekki satt? Hér erum við með þrjá viðskiptabanka. Það er ekkert vandamál að fá lán, smávegis fyrirgreiðslu eða yfirdrátt ef maður er metinn borgunarmaður fyrir því. Þetta er ungt fólk, þetta er fátækt fólk, fólk í vanda, þetta eru fíklar. Þetta eru þeir sem hafa það hvað verst í samfélaginu. Það eru þeir sem lenda undir hælnum á smálánafyrirtækjunum og ég er gjörsamlega á móti þessari starfsemi. Þrátt fyrir að hið háa Alþingi hafi verið að tala um að samþykkja að ekki yrðu teknir meira en 50% vextir hef ég aldrei á ævi minni heyrt annað eins, að við skulum ætla að samþykkja 50% vexti. Þetta er okur. Í gamla daga var liðið sett í fangelsi fyrir að níðast á minni máttar með okurvöxtum. 50% vextir? Þó að það sé kannski 3.500% minna en þeir rukkuðu á árum áður og komust upp með breytir það ekki þeirri staðreynd að mér finnst þetta verulega gruggugt og á kolsvörtu svæði. Flokkur fólksins er algjörlega á móti þessum smálánum. Það verður að gera margt betur og öðruvísi ef við eigum nokkurn tíma að geta samþykkt þetta, sérstaklega þegar við vitum það öll sem hér erum — við erum reyndar mjög fá hér inni núna — að verið er að róa á mið þeirra sem höllustum fæti standa og fá hvergi annars staðar fyrirgreiðslu. Það er algjörlega með ólíkindum að við skulum ekki geta komið í veg fyrir að hægt sé að vaða inn á bankareikninga einstaklinga með smálán og skuldfæra fyrir láninu eins og það leggur sig, með vöxtum og öðru slíku upp á þessa svaðalegu prósentu. Hvar erum við stödd þegar löggjafinn horfir upp á þetta? Þó að við séum af veikum mætti að reyna að klóra í þetta segi ég: Betur má ef duga skal. Best af öllu væri að segja bara: Hingað og ekki lengra! Stopp! Út með þessi smálán!

Við getum t.d. byrjað á því að líta heildstætt á myndina. Við getum byrjað á því að byggja grunninn undir samfélag okkar eins og við viljum sjá það. Við getum byrjað á því að hætta að skattleggja fátækt. Við getum byrjað á því að útrýma henni og koma í veg fyrir að fólkið okkar sé svona illa statt. Við getum líka byrjað á snemmtækri íhlutun og hjálpað fólki sem er í fíknivanda og hætt að láta 600–700 manns vera á biðlista eftir því að fá hjálp inni á Vogi. Þegar það er tekið saman hverjir lenda í þessari gildru eru það þeir einstaklingar sem eiga hvað bágast í samfélaginu, eins og ég sagði áðan. Það er okkar að hjálpa þeim. Það er svo önnur saga, svo ég vaði úr einu í annað eins og mér einni er lagið með ekkert blað og ekki neitt, að vera 16, 17 eða 18 ára unglingur og fá SMS sem hljóðar svo: Vantar þig lán? Viltu smálán? Þú verður búin/n að fá það eftir korter. Segðu bara já. Hakaðu bara við. Samþykktu bara hvaðeina og við leggjum inn á þig. Ertu ekki með kort? Við skulum leggja þetta inn á þig.

Er það svona sem við viljum sjá samfélagið okkar? Nei, alls ekki. Það er okkar, löggjafans, að koma í veg fyrir að þessi starfsemi fái að þrífast hér, þessi starfsemi þar sem fiskað er í verulega gruggugu vatni. Ég verð að segja: Ég er sammála Neytendasamtökunum sem berjast ötullega gegn þessu, sem eru búin að draga fram ýmislegt sem við getum ekki talað um hér og nú, sem ég vona að eigi eftir að koma upp á yfirborðið, draga fram ýmislegt sem rennir ekki bara stoðum undir það heldur sýnir fram á hvernig búið er um hnútana í sambandi við þessi smálán og smálánafyrirtækin.

Flokkur fólksins segir enn og aftur: Hingað og ekki lengra! Stopp! Út með smálánafyrirtækin, burt með þetta! Hjálpum frekar þeim sem eru í vanda og eru í það miklum vanda að þeir sjá engin önnur úrræði en að láta kúga sig og pína á okurvöxtum og óþverraskap eins og þessi fyrirtæki beita.