150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Orkuauðlindir landsins eru í eigu landeiganda. Ríkið er stærsti eigandinn og þar á eftir koma sveitarfélög og aðrir landeigendur, svo sem bændur. Flutningskerfi raforku er í sameign þjóðar en landsmenn sitja ekki við sama borð þegar kemur að flutningi á raforku til síns heima. Það fer nefnilega eftir því hvar þeir búa hvað þeir greiða. Dreifikostnaður raforku hefur hækkað meira í dreifbýli en þéttbýli á undanförnum árum og ljóst er að stöðugt dregur í sundur. Núverandi jöfnunargjald er langt frá því að jafna þennan mun.

En erum við að fara yfir lækinn til að sækja vatnið? Smávirkjanir eru skilgreindar svo að þær séu minni en 10 MW. Þeim hefur fjölgað á undanförnum árum og eru kostir þeirra margir. Þarna flæðir umhverfisvæn orka og bæði mannvirki og náttúrurask eru oft að fullu afturkræfar framkvæmdir. Smávirkjanir tengjast kerfinu um dreifiveitur landsins og styrkja þannig þær flutningsleiðir auk þess sem þær lækka flutningstap raforku og lækka rekstrarkostnað dreifiveitna. Virkjunarkostir fyrir smávirkjanir hér á landi eru margir og um allt land, sérstaklega þar sem styrkja þarf dreifikerfið, en skipulags- og leyfismál smávirkjana eru flókin og reglugerðir íþyngjandi. Ferlið frá hugmynd að tengingu er kostnaðarsamt og tímafrekt og langt frá samsvarandi ferli framkvæmda, t.d. í landbúnaði, þar sem framkvæmdir bæði á landi og mannvirkjum geta kostað umtalsvert rask.

Virðulegi forseti. Ljóst er að smávirkjanir eru ein leið til að styrkja dreifikerfi landsins og lækka kostnað við rekstur þess. Með einföldun leyfis- og skipulagsmála smávirkjana er opnað á leið til að ná niður dreifikostnaði raforku í dreifbýli og það er leið að frekari jöfnun á raforkukostnaði og að jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Já, við þurfum ekki að vaða bæjarlækinn til að sækja vatnið.