150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Um helgina skrapp ég vestur á Flateyri til að vera við setningu lýðskólans þar í annað sinn. Nemendur skólans koma víða að, flestir þó annars staðar að af landinu. Þau hafa vetursetu á Flateyri og njóta þess sem samfélagið hefur upp á að bjóða samhliða náminu og gefa einnig af sér til samfélagsins, verða hluti af samfélaginu meðan þau dvelja þar.

Ég fór að velta fyrir mér hvort ekki mætti skoða eitthvað svipað, þ.e. nokkurs konar skiptinám innan framhaldsskólanna á Íslandi. Nokkur fjöldi íslenskra ungmenna fer á hverju ári til útlanda sem skiptinemar, bæði á eigin vegum og félagasamtaka, og oftast gefur það góða raun. En af hverju gefum við ekki kost á þessu innan lands? Af hverju getur ungmenni úr Kópavogi ekki tekið eina önn vestur á Ísafirði, austur á Egilsstöðum eða norður á Akureyri? Því getur ungmenni á Tröllaskaga ekki tekið eina önn eða tvær í Hafnarfirði eða Mosfellsbæ? Er ekki líklegt að með slíku myndi sjóndeildarhringur þessara ungmenna víkka út? Það væri þess vegna hægt að hugsa sér að þetta væri bæði á heimavistar- og heimilagrunni og ungmenni gætu annaðhvort dvalið á einkaheimilum, þ.e. heimilum annarra ungmenna, eða dvalið á heimavistum þar sem þeim er til að dreifa. Myndi tilfinning ungs fólks fyrir landsbyggðinni, fyrir lífi og starfi fólks annars staðar á landinu, ekki aukast? Myndi skilningur á mismunandi þörfum aukast? Umburðarlyndi? Gæti verið að brottfall myndi minnka?

Ég skil að það gætu verið praktísk vandamál sem þyrfti að leysa en í það heila ætti þetta að vera vel gerlegt. Fjölskyldur fengju tækifæri til að búa með nýju ungmenni og ungmenni fengju tækifæri til að búa með nýrri fjölskyldu. Og þar sem þetta væri innan lands þyrfti þetta ekki að hafa í för með sér mikinn aukakostnað. Við erum oft að tala um að hugsa út fyrir boxið (Forseti hringir.) og hér er fær leið til þess.