150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Fagfélög náttúrufræðinga á Norðurlöndum sameinast núna um að benda á hindranir í vegi þessara sérfræðinga innan Norðurlanda. Unnin hefur verið skýrsla með fjárstuðningi frá Norðurlandaráði um stöðu þessa fólks innan Norðurlanda. Þá kemur í ljós að ýmsar undarlegar hindranir eru í vegi náttúrufræðinga sem vilja vinna á hinum Norðurlöndunum. Það eru sem sagt raunverulegar landamærahindranir og ekki nægt frjálst flæði þessa sérstæða vinnuafls.

Það sem kemur í ljós er að betri samsvörun vantar á kröfum um menntun náttúrufræðinga í löndunum. Sum eru innan Evrópusambandsins og önnur ekki. Þetta snýr líka að launaflokkun, viðbótarnámi o.fl. Þarna er greinilega þörf á samræmingu.

Skrifræði er til trafala. Það þarf að stytta leyfisferli og annað slíkt og það þarf að koma á fót rafrænum skilríkjum. Fjölskylduvænni aðstæður óskast í hópi þessa fólks. Það þarf t.d. að samræma réttindi fólks í hverju landi fyrir sig varðandi börn og annað slíkt. Tungumál geta greinilega vafist fyrir fólki og óskað er eftir fleiri og betri tungumálanámskeiðum. Síðan er þess óskað, ekki af stjórnvöldum heldur félögum, að teknar verði upp gestaaðildir að fagfélögum í hverju landi fyrir sig.

Mikilvægi starfa náttúrufræðinga blasir við á tímum vanda í auðlindanytjum, aukinnar áherslu á umhverfisvernd og frammi fyrir loftslagsvánni. Auðvitað eru náttúrufræðingar lykilfólk þegar á að taka upp vinnu að grænu samfélagi. Ég hvet stjórnvöld til að taka saman höndum við hin norrænu stjórnvöldin, leysa þessar hindranir og koma málum þannig fyrir að frjálst flæði (Forseti hringir.) náttúrufræðinga verði innan Norðurlanda.