150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Njörður Sigurðsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að ræða um einn vinkil á hugmynd hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um að taka RÚV af auglýsingamarkaði sem ekki hefur verið mikið fjallað um. Eins og fram hefur komið í þessum sal og í fjölmiðlum ætlar ráðherra að bæta RÚV árlegt milljarða króna tekjutap sem almannamiðillinn verður af vegna hugmyndar um að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Enn er þó óljóst hvernig ráðherra hyggst bæta þetta tekjutap þó að rúmt ár sé síðan hann kynnti þessar hugmyndir. Ein hugmynd sem ráðherra hefur nefnt á Alþingi er að hliðrað verði á milli málefnasviða ráðuneytisins til að bæta tapið. En hvað þýðir það? Á mannamáli þýðir það niðurskurð hjá öðrum stofnunum og verkefnum ráðuneytisins, þ.e. í fræðslu- og skólamálum, lista- og menningarmálum, íþróttamálum og framlagi til vísinda og æskulýðsmála svo dæmi séu tekin.

Haldi ráðherra því til streitu að taka RÚV af auglýsingamarkaði munu mögulega aðrar stofnanir ráðuneytisins þurfa að gjalda fyrir það. Þá vaknar upp spurningin: Hvað má það kosta að taka RÚV af auglýsingamarkaði? Má það kosta lægri framlög í menntakerfið, íþróttamál eða listir og menningu? Hvað með lækkun framlaga til vísinda? Er það ásættanlegt verð? Hver á verðmiðinn að vera? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)