150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í skýrslu um lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004–2016 kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Öryrkjar eru sennilega sá hópur sem býr við hvað lökust kjör í íslensku samfélagi og börn þeirra standa síst betur en börn einstæðra foreldra. Hin augljósa leið til að draga úr fátækt öryrkja er að auka örlæti örorkulífeyris, draga úr skerðingum og létta skattbyrði þeirra. Öryrkjar búa við skerta vinnugetu sem hamlar þeim við að bæta hag sinn. Félagslegar tilfærslur færa marga þeirra upp fyrir lágtekjumörkin en þó ekki mjög langt upp fyrir þau. Raunveruleiki margra öryrkja og barna þeirra er því viðvarandi fjárhagsþrengingar og fátækt.“

Í ljósi þess að hæstv. félags- og barnamálaráðherra ætlar einungis að hækka bætur hjá þeim lægst launuðu í samfélaginu um 3,5% frá og með 1. janúar 2020 og ekki stendur til að afnema skilyrði og skerðingar sem örorkulífeyrisþegar þurfa að lifa með, velti ég fyrir mér hvað það kostar samfélagið að viðhalda fátækt og af hverju í ósköpunum við leggjum ekki meiri áherslu á að reikna það út hver kostnaðurinn er. Í Bandaríkjunum hafa verið framkvæmdar rannsóknir sem áætla kostnað samfélagsins af fátækt og sá kostnaður hefur verið metinn sem 5,4% af vergri landsframleiðslu Bandaríkjanna. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir. Ef við yfirfærum það hlutfall á íslenska verga landsframleiðslu eru þetta um 150 milljarðar á ári, sem er kannski ekki sanngjarnt að gera en setur þetta í smásamhengi. Ef við deilum þeirri upphæð á hvern fullorðinn einstakling á Íslandi eru það rúmlega 500.000 kr. á ári. Það væri hreinlega ódýrara fyrir samfélagið að gefa öllum sem búa undir eða við fátæktarmörk þennan pening, það væri mannúðlegra líka, það væri „win win“.

Segjum sem svo að við séum helmingi betri en Bandaríkin, bara til að vera sanngjörn, eru þetta samt 75 milljarðar, sem er sirka það sem við setjum í Landspítalann á ári hverju.

Forseti. Tilgangurinn með þessum vangaveltum er einmitt að benda á mikilvægi þess að hafa þær upplýsingar um hvað fátækt kostar okkur af því að ég get ekki séð að þessar upplýsingar séu til. Ber okkur ekki að rannsaka neikvæðar afleiðingar ákvarðana ráðherra og kostnaðinn sem þær afleiðingar hafa fyrir samfélagið til lengri tíma? Þetta er ekki ólíkt því sem er verið að ræða varðandi loftslagsmálin og umhverfismálin, að við skoðum ákvarðanir okkar, (Forseti hringir.) hvaða áhrif þær hafa, hvort þær séu jákvæðar eða neikvæðar fyrir samfélagið til lengri tíma litið. Þetta skiptir máli.