150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

breyting á ýmsum lagaákvæðum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

131. mál
[14:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Þann meiri hluta skipa sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Ólafur Þór Gunnarsson, Bryndís Haraldsdóttir, Smári McCarthy, Þorsteinn Víglundsson og Willum Þór Þórsson. Málið er á þskj. 131, 131. mál.

Hinn 20. júní sl. samþykkti Alþingi ný heildarlög um Seðlabanka Íslands, samanber lög nr. 92/2019. Jafnframt samþykkti Alþingi lög um breytingu á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, samanber lög nr. 91/2019. Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við frumvörpin sem urðu að framangreindum lögum var tekið fram að breytingartillögur meiri hlutans við safnlagafrumvarpið væru m.a. til komnar vegna lagabreytinga sem orðið hefðu eftir framlagningu þess og vörðuðu Fjármálaeftirlitið þannig að það kallaði á breytingu samhliða gildistöku safnlagafrumvarpsins. Þar sem ekki væri fyrirséð hver yrðu afdrif allra þeirra frumvarpa sem komið hefðu fram eftir samningu safnlagafrumvarpsins og svona háttaði til um mætti búast við að fleiri breytingar þyrfti að gera með nýju frumvarpi á komandi haustþingi. 1.–6. gr. þessa frumvarps kveða á um slíkar breytingar og eru til komnar vegna gildistöku laga um frystingu fjármuna, laga um dreifingu vátrygginga, laga um skráningu raunverulegra eigenda, breytingu á lögum um greiðsluþjónustu og laga um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga, eins og kemur fram í greinargerð.

Í ákvæði til bráðabirgða I við lög um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, er m.a. kveðið á um heimild til að auglýsa og skipa varaseðlabankastjóra fyrir 1. janúar 2020 þrátt fyrir gildistökuákvæði laganna. Til að taka af allan vafa um að fyrirkomulag þeirrar skipunar skuli vera í samræmi við ákvæði 4. gr. laganna þar um er í 7. gr. frumvarps þessa lagt til að tilvísun til 4. gr. seðlabankalaga bætist við 1. málslið ákvæðis til bráðabirgða I í lögunum. Lagt er til að þetta ákvæði öðlist þegar gildi en að önnur ákvæði frumvarpsins öðlist gildi 1. janúar nk.

Herra forseti. Ég óska eftir því að að lokinni þessari umræðu gangi frumvarpið beint til 2. umr.