150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

9. mál
[14:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að mæla fyrir þessari tillögu. Hún er samhljóða tillögu sem hefur verið flutt tvisvar áður af hv. þm. Ólafi Ísleifssyni. Hún var flutt hér í fyrra án þess að núverandi þingmenn Flokks fólksins tækju þátt í þeirri umræðu. Það er ekki venja að menn taki mál sem sitjandi þingmenn hafa flutt undanfarin þing og geri þau að sínum nema þá kannski með samkomulagi þar um og því hnaut ég um það sem hv. þingmaður sagði um að taka saman höndum um þetta mál, að það hefði verið létt verk fyrir hana og annan þingmann Flokks fólksins að leita samkomulags og taka saman höndum um að flytja þetta mál hið þriðja sinni. (Gripið fram í.) — Ég ætla að biðja forseta að hafa góða skikkan á fundinum.

Eins og ég sagði áður var þetta mál flutt nánast óbreytt á 148. og 149. löggjafarþingi. Hv. þingmaður nefndi hve miklu máli þetta skipti sem ég er algjörlega sammála henni um og mig langar til að spyrja hvers vegna hún og annar þingmaður þessa ágæta flokks hafi ekki leitast við að taka saman höndum við þann sem áður hafði flutt tillöguna nánast óbreytta, svona til að fá breiðari samstöðu á bak við hana.