150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

9. mál
[14:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Til að svara þessari meintu ósvífni er hér tillaga til þingsályktunar frá 149. löggjafarþingi, þ.e. í fyrra, samhljóða þeirri sem hér er lögð fram. Í henni segir að flutningsmenn séu Ólafur Ísleifsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Inga Sæland og Karl Gauti Hjaltason. Þetta er sama tillagan og verið er að flytja nú. Ég segi aftur: Ef mönnum er í mun að fá hér samstöðu um mál, og það stóð ekki í mönnum að vera með á þessari tillögu í fyrra þó að þeir tækju ekki þátt í umræðunni á þeim tíma, hvers vegna leita menn þá ekki leiða til að taka saman höndum við aðra sem hafa svipaðan áhuga og til að breikka stuðning við tillöguna sem hér er til umræðu? Ég ítreka að það hefur ekki verið til siðs að menn tækju tillögur annarra flutningsmanna frá því fyrir einu eða tveimur árum og gerðu þær að sínum nema með því að hafa a.m.k. samband við viðkomandi.

Það getur vel verið að þetta komi illa við hv. þingmann en það verður þá að hafa það. Þetta eru þær staðreyndir sem hér eru fram lagðar, svona var þessu máli háttað. Það er vænlegra ef við erum að berjast fyrir þá sem minnst mega sín, sem við höfum áhuga á að gera, að leita samstöðu og veitir ekki af í þessum sal núna. Eins og hv. þingmaður orðaði það svo ágætlega verðum við að taka saman höndum um að vinna að þessum málum.