150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

9. mál
[14:36]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega að verða algjörlega pass. Ég átta mig ekki á þeirri vegferð sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson er á nema hann sé á þeirri siðferðislega taktísku vegferð sem Miðflokknum einum er lagið. Þetta var þingmál Flokks fólksins frá A til Ö. Öll hugmyndafræði kemur frá þingmönnum Flokks fólksins frá A til Ö. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur fékk greitt fyrir að koma með alla útreikninga varðandi þessa þingsályktunartillögu frá A til Ö. Í þessu tilviki var fyrrverandi þingflokksformanni veittur sá heiður að mæla fyrir tillögunni.

Ef hv. þingmanni dettur í hug að ég fari að eltast við Miðflokksmenn í einhverjum tilgangi er það mesti misskilningur. Ykkur er hins vegar alltaf velkomið að styðja við góð málefni sem Flokkur fólksins leggur fram. Hv. þingmaður veit það líka mætavel að þegar fjórir eða fleiri þingmenn eru í flokki geta ekki allir talað eins og þeim sýnist í ræðupúlti Alþingis. Ég var ekki í umræðunni í seinna skiptið sem við fluttum þessa tillögu heldur minn ágæti þingflokksbróðir, Guðmundur Ingi Kristinsson. Ég býst við að ég hafi ekki tekið til máls vegna þess að ég hafi einfaldlega ekki verið í þingsalnum.