150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

9. mál
[14:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisræðu sem hann hefði einnig getað haldið í fyrra um sama efni ef hann hefði tekið þátt í umræðunni þá, sem hann gerði það ekki. Það verður að segjast eins og er að þessi tillaga er í sjálfu sér góð, enda byggist hún á tillögu sem þegar er búið að leggja fram tvisvar sinnum áður. Það vekur samt athygli að hún er frekar útþynnt og greinargerðin sem fylgir þessari tillögu er ekki svipur hjá sjón miðað við þá greinargerð sem fylgdi tillögunni í fyrra og fór mjög vel yfir þróunina sem hefur orðið á skattbyrði, sérstaklega meðaltekjufólks og lægri tekjuhópa. Þessi tekur ekki á henni sem slíkri.

Ég verð að leiðrétta hv. þingmann. Ég talaði hvergi um þjófnað í andsvari mínu áðan. Ég sagði hins vegar að það hefði verið til siðs ef menn tækju upp tillögur sitjandi þingmanna að hafa samráð við þá þingmenn eða þann þingmann sem hefði flutt tillöguna áður. Þetta er nú bara regla sem hefur verið í heiðri höfð. Orðið þjófnaður eða annað slíkt kom ekki af mínum munni í þessum ræðustóli. Ég bið forseta að gaumgæfa það. Ef það hefur komið fram í andsvari mínu áðan að ég hafi vænt fólk um þjófnað þætti mér vænt um að forseti gaumgæfði það en ég vil vekja athygli forseta á því að svo er ekki, heldur var þetta sett fram eins og ég rakti áðan. Menn ættu að fara varlega í slík brigsl.

Það breytir hins vegar ekki því, eins og ég segi, að málið er þarft og ágætt. Ég myndi þó í sjálfu sér vilja leggja til við flutningsmenn að þeir skerptu á tillögunni líkt og gert var við tillöguna í fyrra þar sem gert var ráð fyrir að viðkomandi lagabreytingar yrðu gerðar fyrir lok árs 2018. Í tillögunni núna er gert ráð fyrir að nauðsynlegar lagabreytingar til þess að tillagan komist á koppinn verði gerðar fyrir lok ársins 2020, eftir eitt og hálft ár. Þetta þykir mér að menn ættu aðeins að skoða og skerpa á, sérstaklega þegar tillagan er komin til meðferðar í nefnd, vegna þess að ég held að við getum öll verið á einu máli um að þeir sem lökust hafa kjör á Íslandi og bágast eru settir eiga ekki að bíða eftir réttlæti, eins og fram kom í ræðu þáverandi hv. þingmanns og núverandi hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur fyrir þremur árum síðan. Þess vegna er mjög mikilvægt að þau skref sem stigin eru fyrir þá sem bágast standa séu stigin eins hratt og örugglega og hægt er.

Ég tók eftir því, þó að það sé óskylt þessu máli, að hv. þingmaður minntist á nefnd sem ég stýrði eftir fráfall hv. þm. Péturs Blöndals heitins um endurskoðun almannatryggingakerfisins. Þingmaðurinn spurði: Hverjir sátu eftir? Jú, það voru öryrkjar, sagði hann. Það er vegna þess að það náðist ekki samstaða í nefndinni um það sem þar var til úrlausnar, þrátt fyrir að sá sem stýrði nefndinni drægi niðurstöðu nefndarinnar og skýrslugerð í líklega tvo mánuði, ef ég man rétt, til að freista þess að ná fullkominni samstöðu um málið. Þessi fullkomna samstaða náðist ekki vegna þess að öryrkjar, þ.e. Öryrkjabandalagið þá, ásamt flokkum á vinstri væng, vildu ekki taka þátt í að afgreiða málið. Það gerðu hins vegar eldri borgarar og fengu að nokkru bót sinna mála með því að þeir stóðu að því að afgreiða málið. Það er ekki á ábyrgð þess sem hér stendur að fulltrúar öryrkja í nefndinni og/eða Öryrkjabandalagið hafi ekki viljað standa að því að ljúka málinu þá. Það er ekki á ábyrgð þess sem hér stendur heldur á ábyrgð fulltrúa Öryrkjabandalagsins í nefndinni og Öryrkjabandalagsins sjálfs. Það er hins vegar mjög miður að sú samstaða skyldi ekki nást þá og það er mjög miður að öryrkjar skyldu sitja eftir vegna þess og svo virðist sem það sé enn erfitt að koma málum öryrkja hvað þetta varðar í gott horf. Ekki hefur það gengið björgulega í nefnd sem nýlokið hefur störfum og hv. þingmaður átti sæti í einn stjórnarandstöðuþingmanna. Að vísu fréttist ekkert í aðra flokka hvað gerðist í þeirri nefnd fyrr en niðurstaðan var fengin en niðurstaðan var ekki hagfelldari öryrkjum nú en hún var þá, því miður, og hefði þó ekki veitt af. Þegar er verið að vinna flókin mál tekur það einfaldlega á og það tekur tíma og það þarf mikinn samningsvilja og traust. Auðvitað skil ég það vel t.d. núna að fulltrúar öryrkja í nefndinni sem nú var við störf hafi ekki traust á núverandi stjórnvöldum og núverandi félags- og barnamálaráðherra. Ég skil það mætavel.

Þetta var útúrdúr og ekki um málið sem við ræðum hér. Við erum náttúrlega að ræða það að skattleysismörk verði hækkuð á Íslandi. Í sjálfu sér þurfum við ekkert að bera það saman við eitthvað annað. Við þurfum ekkert að bera það saman við einhverja launahækkun sem þingmenn fengu og hafa nú ekki fúlsað við. Okkar verkefni er ekki að búa til einhverja togstreitu milli tekjuhópa í þjóðfélaginu. Þvert á móti. Okkar hlutverk er að brúa það bil sem best við getum. Við gerum það ekki með því að vera með yfirlýsingar í ræðustól um að það sé hræðilegt að þingmenn hafi fengið launahækkun og móttekið hana. Ég held að það sé alveg ljóst. Það er einnig líka í sjálfu sér hvimleitt að menn skuli koma í ræðustól, eins og hv. þm. Inga Sæland áðan, og tala niður til siðferðis Miðflokksins. Ég óska henni til hamingju með það að vera yfir það siðferði hafin. Ég held að það hljóti að vera einhvers virði. Það kemur náttúrlega í ljós á hverjum degi hvaða siðferði við þingmenn sem sitjum hér búum yfir. Ég held að það sé bara ágætt fyrir okkur að gaumgæfa það á hverjum degi.

En að því sögðu ítreka ég að ef hv. þingmönnum Flokks fólksins hefði verið mikið niðri fyrir og þeir viljað taka saman höndum við aðra þingmenn og flokka á þinginu um þetta mál hefði verið ágætt að sjá tilburði til þess áður en málið var lagt fram. Það þýðir ekkert að andskotast í þeim sem taka til máls undir þessum dagskrárlið fyrir að vera einhvern veginn öfugsnúnir í þessu máli. Ég kannast ekki við að það hafi verið leitað eftir því að t.d. Miðflokkurinn styddi þetta mál eða að við þingfólk Miðflokksins værum meðflutningsmenn. Ég veit ekki nema við hefðum brugðist vel við því ef eftir því hefði verið leitað. En ég segi aftur: Þetta mál er ögn útþynnt miðað við það sem var lagt fram, t.d. í fyrra og árið þar áður. En málið er gott engu að síður og fær vonandi góða afgreiðslu hér á þinginu.