150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

9. mál
[14:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og ég vil taka strax fram að ég biðst afsökunar ef ég hef farið með rangt mál og talað um þjófnað. Ég biðst afsökunar á því enn og aftur. En það er svolítið undarlegt ef við horfum í baksýnisspegilinn að hv. þingmaður finnur að því að það eigi ekki leggja fram frumvarp byggt á þessu máli fyrr en í árslok 2020. Þetta er eitt af fimm forgangsmálum Flokks fólksins. Þau koma núna inn hvert á fætur öðru og í lokin mun koma mál sem skýrir út nákvæmlega hvernig við ætlum að fjármagna allan okkar velferðarpakka. Þar munu koma vel og vendilega fram skýringar á því hvernig þetta allt fer fram og hvernig við ætlum að fjármagna þetta. Þannig að það fer ekki á milli mála að við munum sýna fram á það og við munum nota í þeirri röksemdafærslu alla útreikninga sem við þurfum á að halda og sérstaklega þá sem við höfum þegar borgað fyrir í Flokki fólksins.

Hv. þingmanni finnst undarlegt í þessu sambandi af hverju við höfum ekki fengið Ólaf Ísleifsson eða Miðflokkinn með. Það er einfaldlega vegna þess að viðkomandi einstaklingar voru komnir í samkrull með Miðflokknum, að þeir myndu ganga í hann. Miðflokkurinn var að véla inn menn úr öðrum flokkum, sem ég get ekki ímyndað mér að sé gott siðferði eða eðlilegt háttalag á þingi. En það getur svo sem vel verið að ég fari villur vegar þar og ég spyr bara: Er eðlilegt að ganga í að véla menn úr öðrum flokkum (Forseti hringir.) úr stjórnarandstöðu sem eiga að berjast saman gegn ríkisstjórn? Er það kannski eðlileg meðferð mála hjá Miðflokknum?