150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

9. mál
[15:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég veit að hv. þingmaður var ekki á þeirri samkundu og við þá umræðu sem fór fram á Klausturbar á sínum tíma. En frá því sem þar fór fram hefur verið ítarlega sagt í fjölmiðlum. Honum finnst kannski það sem þar fór fram ekki hafa verið næg ástæða til að reka viðkomandi úr okkar flokki, menn sem voru að makka um að fara úr okkar flokki og ganga yfir í Miðflokkinn á fyllirí á sama tíma og fjárlögin voru í umræðunni hér 100 metrum frá. Það eru kannski hin eðlilegustu vinnubrögð hjá Miðflokknum, ég veit það ekki. Þetta er kannski eitthvað sem þeim finnst ósköp eðlilegt en okkur í Flokki fólksins finnst það ekki. Við höfðum þessa klásúlu. Við rákum þá út af því. Það sem fyllti mælinn hjá mér og olli því að það tók ekki nema 12 tíma að ákveða að reka þá úr flokknum var lokaræðan þegar þeir héldu að þeir væru að fara út af þessu fjögurra tíma fylliríi og hraunuðu yfir allt og alla, öryrkja og konur á fáránlegan hátt eins og við vitum og þökkuðu hver öðrum svo fyrir frábært kvöld og góðar umræður. Ef þetta er veganestið sem menn þurfa að hafa til að komast inn í Miðflokkinn eru þeir bara velkomnir þangað. En mitt siðferði og okkar í Flokki fólksins er á því stigi að við viðurkennum ekki svona hluti og við höfum ekki samband við þá menn sem haga sér svona og við erum ekki í nokkru samkrulli við þá og munum ekki vera. Það er það sem við stöndum við.