150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

9. mál
[15:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að biðja þingmanninn að velvirða við mig að ég tók ekki við afsökunarbeiðni hans áðan, sem ég geri fúslega. Ég byrja á því. Nú var sá sem hér stendur ekki á Klausturbar þetta umrædda kvöld, fylgdist ekki með umræðum, tók ekki þátt í þeim, hann var reyndar staðsettur hér í stóli forseta þetta kvöld þannig að ég var ekki viðstaddur það sem þar fór fram. Ég hef hins vegar aldrei varið það og mun aldrei gera og hef ekki dregið úr þeirri vanvirðu sem þar fór fram. En ég trúi því nú innst inni að allir menn og konur eigi möguleika á málsbótum og eigi möguleika á því að bæta ráð sitt og það er einmitt það sem ég tel að þeir sem þarna voru hafi gert, sem ítrekað hefur komið fram. En að sjálfsögðu kemur svo í ljós hvort þeir eigi það traust enn þá utan húss sem þeim hefur verið sýnt hér innan húss síðar. Það fréttum við eftir tvö ár. Að sjálfsögðu munu þeir og þingflokkurinn allur taka þeim dómi þegar hann fellur.

Sjálfur hef ég ekki lagt mig eftir þeim umræðum sem þarna fóru fram þannig að frásagnir hv. þingmannsins af þeim tek ég trúanlegar. Hins vegar er fjölmiðlaumfjöllun um þetta mál allt annars eðlis og ég hef ekki heldur lagt mig eftir henni. Að því leyti til held ég að við getum skilið sáttir að sinni, ég og hv. þingmaður.