150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

virðisaukaskattur.

26. mál
[15:12]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Um afar mikilvægt mál er að ræða, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi hér á undan mér. Þetta er, eins og við segjum stundum, gamall vinur síðastliðinna ára. Frárennslismál eru yfir höfuð mjög stórt úrlausnarefni. Þó að við séum frekar fámenn í stóru landi eru hér þéttbýlisstaðir og víða viðkvæmir viðtakar. Þetta tengist vatnsgæðum og hreinleika lífvera í nærumhverfi okkar, bæði á sjó og landi. Eins og einnig kom fram hjá hv. framsögumanni hér á undan mér eru ýmsir staðir þar sem þetta hefur gengið ágætlega. Það eru góðir viðtakar við frárennsli, eða sæmilegir, gjarnan sjórinn sjálfur. Það eru aðrir staðir, sérstaklega landluktir, þar sem viðtakinn er viðkvæmur og lausnir mun erfiðari. Það er líka mikilvægt að muna að það skiptir máli hvers konar hreinsibúnaður er á ferðinni, að það séu ekki bara rotþrær heldur flóknari tæknibúnaður, fyrsta, annars eða þriðja stigs hreinsun eins og gjarnan er talað um. Það er jafnvel hægt að losna við örplast úr frárennsli. Það er til úttekt þar sem til að mynda er verið að bera saman Ísland og Svíþjóð og þar kom fram að á þéttbýlustu svæðum, annars vegar í Reykjavík og hins vegar í stórborgum í Svíþjóð, er örplastmengun í frárennsli miklum mun meiri hér en í Svíþjóð. Þetta er eitt af þeim málum sem taka þarf tillit til.

Herra forseti. Ég kem hér upp til að lýsa því að mér líst mjög vel á þessa tillögu svo langt sem hún nær. Ég er sammála því að þátttaka ríkisins er nauðsynleg í þessum málaflokki. Eftir því hvernig við förum að þessu, með virðisaukaskattsfráfellingu eða öðru, er erfitt að sjá fyrir í bili hver fjárhæðin er sem verið er að fara fram á að falli á ríkissjóð; hún er örugglega allhá, ég ætla ekki að fjölyrða um það. Mitt erindi var fyrst og fremst að reifa stöðu mála í stjórnkerfinu því ég kannaði það sérstaklega. Þá vil ég fá að segja frá því að mjög nýlega var lagt fram minnisblað í ríkisstjórn og í framhaldi af því var ákveðið að stofna starfshóp um málefnið sem hér um ræðir. Þar í eru fulltrúar frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, frá fjármálaráðuneytinu og frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, auk sérfræðinga. Verkefni hans er að kortleggja hvar skórinn kreppir. Við vitum jú að það eru allmörg sveitarfélög sem þurfa þessa aðstoð. Hvers konar skilyrði þarf að uppfylla þegar um er að ræða þessi frárennslismál, eða frágang þeirra öllu heldur, hvaða reglugerðir þarf að uppfylla og hvernig þarf hreinsun að vera o.s.frv.? Það er síðan verkefni þessarar nefndar að áætla kostnað miðað við leiðir í ríkisstuðningi og þá sérstaklega það að fella niður virðisaukaskatt af framkvæmdum.

Herra forseti. Þetta mál er komið á rekspöl og það er ljóst að afgreiðsla á því, hvernig sem hún nú verður, má ekki dragast mikið. Þetta er mikilvægur hluti umhverfismála. Frárennslismál eiga alls staðar á Íslandi að vera í góðu lagi. Við erum að leggja áherslu á matvælaframleiðslu, hreinleika landsins, ferðaþjónustu o.s.frv. og því er til mikils að vinna.