tekjuskattur.
Herra forseti. Ég flyt hér frumvarp um breytingu á tekjuskattslögum frá 2003. Þetta er eitt af forgangsmálum Vinstri grænna, við köllum þetta gjarnan frádrátt vegna kolefnisjöfnunar. Flutningsmenn eru auk mín Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Líneik Anna Sævarsdóttir, Óli Björn Kárason og Ólafur Þór Gunnarsson. Frumvarpið hljóðar svo:
„Við 31. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Framlög til aðgerða sem gagnast kolefnisjöfnun, þó ekki yfir 0,85% af tekjum samkvæmt B-lið 7. gr. á því ári sem framlögin eru innt af hendi. Þetta á við aðgerðir í rekstri til kolefnisjöfnunar sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslustarfa og endurheimtar votlendis. Til framlaga teljast, auk fjárframlaga til sjóða, sjálfseignarstofnana og samtaka sem vinna að kolefnisjöfnun, verklegar framkvæmdir sem fyrirtæki taka að sér í samvinnu við sjóði, sjálfseignarstofnanir og samtök og taka ekki greiðslu fyrir. Til framlaga telst einnig framkvæmdakostnaður, svo sem fæði og ferðir, þegar um er að ræða sjálfboðaliðastörf starfsmanna fyrirtækis til kolefnisjöfnunar. Ráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.“
Þetta frumvarp var lagt fram á síðasta þingi, 149. löggjafarþingi, og er nú lagt fram aftur með breytingum í samræmi við ábendingar sem bárust.
Íslensk stjórnvöld hafa sett sér framsækin markmið í loftslagsmálum. Fyrra skrefið verður tekið með því að gangast undir skuldbindingar Parísarsamkomulagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Seinna skrefið felst í að ná þeirri stöðu að verða kolefnishlutlaust samfélag fyrir árið 2040. Hvorugu markmiði verður náð án virkrar samvinnu ríkis, sveitarfélaga, atvinnulífs — og ég legg áherslu á það, atvinnulífs — og almennings. Meðal aðgerða í samþykktri aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er aukin binding kolefnis. Þar er einna fyrirferðarmest aukin skógrækt og uppgræðsla auðna og illa farins gróðurlendis. Í ljós hefur komið að endurheimt votlendis sem ræst hefur verið fram og er ekki nýtt er einnig áhrifarík aðgerð við að binda gróðurhúsalofttegundir og minnka losun. Ný íslensk aðferð við að dæla kolefnisgasi niður í berggrunn og mynda þar steind hefur vakið athygli og getur líka hentað í þessum aðgerðum, einkum í orkufrekum iðnaðarverum. Unnið er jafnt og þétt að endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar sem um ræðir og sett fram skilgreind markmið eftir því sem fjárlög hvers árs teljast rúma.
Þátttaka fyrirtækja í öllum atvinnugreinum í baráttunni gegn hlýnun loftslags á heimsvísu er afar mikilvæg. Ég nefni þar svokallaðan Parísarsáttmála, ekki Parísarsamninginn heldur sáttmála sem var gerður þar sem borgir og stórfyrirtæki, m.a. Reykjavík, taka þátt í að vinna að minnkun losunar og kolefnisbindingu. Eins eru núna nýjar fréttir af 19 fyrirtækjum og stofnunum á Akureyri sem tóku höndum saman við bæjarfélagið um að gera slíkt hið sama. Það liggur í augum uppi að þessi þátttaka fyrirtækja á við um reksturinn sjálfan en ekki síður, og á það leggjum við áherslu í þessu máli, um framlög fyrirtækja til skógræktar, endurheimtar landgæða og endurheimtar votlendis. Framlögin geta verið í formi kolefnisjöfnunar starfsemi fyrirtækja í samvinnu við Kolvið, sem ég vænti að margir þekki, samstarfssamnings um kolefnisbindingu við t.d. sjálfboðaliðasamtök eða Landgræðsluna og einnig þátttöku í styrkjum til samtaka og stofnana sem vinna á þessum vettvangi o.s.frv. Fyrir utan Landgræðsluna vil ég nefna önnur dæmi eins og Skógræktina eða skógræktarfélög, og svo nýstofnaðan eða ungan Votlendissjóð. Það má einnig nefna að fyrirtæki í t.d. byggingariðnaði eða í verkefnum með þungavinnuvélum hafa sýnt áhuga á að fá verkefni við endurheimt votlendis og vinna þau án þess að fá greitt fyrir. Framlag þeirra væri auðvitað metið til fjár. Það er kostnaður við rekstur og notkun tækja og kostnaður vegna ferða og fæðis starfsmanna.
Mig langar að nefna tvennt sem ég tel nokkra nýlundu frá því að þetta mál var fyrst flutt. Það er von á EES-innleiðingu sem er á þingmálaskrá utanríkisráðuneytisins í nóvember þar sem er fjallað um samvinnu á sérstökum sviðum innan fjórfrelsisins svokallaða, breytingu á bókun 31 við EES-samninginn. Þar koma fram tvö meginatriði sem ég ætla aðeins fá að rekja. Annars vegar verður leyfilegt að fella losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku gróðurhúsagasa frá breyttri landnotkun og skógrækt inn í loftslags- og orkurammann til ársins 2030. Hins vegar er gert að skilyrði að það verði tekin upp bindandi árleg skerðing á losun gróðurhúsalofttegunda aðildarríkjanna frá 2021–2030. Það er sem sagt verið að veita lágmarksaðhald hvað snertir árlega losun. Það er gott vegna þess að það eykur þá skilvirknina. Hitt atriðið sem mig langar að nefna er varðandi votlendisumræðuna sem hér hefur verið, um gagnsemi þess að minnka losun frá framræstu mýrlendi eða votlendi og auka bindingu þar, um að þar sé stuðst við faglega ráðgjöf. Það hefur borið á því að menn hafa dregið gagnsemi þessa í efa og ekki viljað styðjast við erlendar tölur, sem mælingar á Íslandi hafa reyndar sýnt fram á að eru nokkuð réttar, en engu að síður þarf að taka tillit til faglegrar ráðgjafar, taka tillit til ólíkrar bindigetu trjátegunda þegar um er að ræða bindingu með skógrækt og vaxtarhraða þeirra því að allar þessar aðgerðir þarf að hámarka með því að styðjast við bestu vísindalegu fagráðgjöf hverju sinni.
Við verðum líka að muna virkilega eftir gildi uppgræðslu auðna sem eiga að vera grónar en eru það ekki og gildi uppgræðslu illa farins eða mjög skemmds lands. Þar inn í fléttast ákveðið atriði sem við erum farin að sjá fyrstu merki um ágreining um sem snertir samvinnu sveitarfélaga og þeirra aðila sem fara út í endurheimt votlendis, þ.e. um leyfisveitingar eða annars konar samvinnu sem byggir á skilningi á mikilvægi þessa og mikilvægi landbúnaðarlands og mikilvægi votlendis. Þarna þarf að skoða hvort þessi samvinna sé ekki í góðu lagi.
Ég ætla aðeins að nefna það líka að skilyrði fyrir því að heimilt verði að nýta kostnað til frádráttar er að framlög nýtist til aðgerða sem raunverulega gagnast við kolefnisjöfnun og að framlögin beinist til lögaðila sem er til þess bær að taka við slíku framlagi. Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra setji reglugerð um framkvæmd ákvæðisins, svo sem hvað teljist til aðgerða sem gagnist kolefnisjöfnun, hvort og þá með hvaða hætti bókhaldsskyldur aðili, fyrirtæki eða einyrki með skattskylda starfsemi skuli leggja fram staðfestar upplýsingar um slík framlög, fjárhæð framlagsins, hvað felist í því og hvers eðlis það sé, t.d. hvort um sé að ræða bein fjárframlög til samtaka eða stofnana, greiðslur vegna ferða og fæðis, eins og ég minntist á áðan þegar starfsmenn inna t.d. af hendi sjálfboðaliðastörf, eða framlög í sjálfan reksturinn sem gagnast til kolefnisjöfnunar. Allt þetta skiptir máli og verður að koma fram í reglugerð sem þessari.
Að lokum vil ég fara örfáum orðum um skylt mál sem ég vil kalla þætti staðreynda í loftslagsmálum. Það eru nýleg dæmi í umræðu í þingsal þar sem frjálslega er farið með fullyrðingar sem eiga að vera staðreyndir en standast ekki rýni. Þá á ég við orð forstöðumanns Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar sem voru hér afbökuð og rangtúlkuð. Ég nefni orð þar sem verið er að afflytja staðreyndir um fellibylji og hitabeltislægðir, orð um að vistspor fljótandi gass sem notað er í orkuframleiðslu sé minna eða meira en vistspor vindorkumylla o.s.frv. Þetta eru atriði sem hafa bergmálað hér í sölum en bera þess vitni að menn dragi annaðhvort í efa áhrif loftslagsbreytinga, orsök loftslagsbreytinga eða yfir höfuð eitt og annað sem að þeim snýr. Ef orðræðan í loftslagsmálum styðst ekki við staðreyndir sem þola rýni endar hún á því að gera lítið úr mótvægisaðgerðunum sem við þurfum að fara út í, hvort sem það er losun eða binding, gera lítið úr nauðsyn grænna skatta og áhrifa þeirra og gera lítið úr þeim mótvægisaðgerðum í loftslagsmálum sem hafa verið samþykktar og eru í farvatninu og við þurfum vissulega að auka. Þau enda á því að gera lítið úr því sem vel er gert. Eins gera þau lítið úr því sem ætlað er til aðlögunar, hvort sem það er hugsanlegur þjóðarsjóður eða aðgerðir og starfsemi loftslagsráðs o.s.frv.
Ég vil bara ítreka að hvort sem það er í tengslum við þetta mál um gagnsemi þess að taka 0,85% tekna fram hjá tekjuskatti eða mun stærri mál sem hér eru í farvatninu og er verið að flytja jafnvel í dag og á þessu þingi yfir höfuð, megum við ekki standa okkur sjálf að því að afflytja vísindalegar niðurstöður heldur gera allt sem við getum til að halda fram staðreyndum og gildum rökum. Því að þegar allt kemur til alls er sú tegund málflutnings, sú hófsemi, mikilvæg til að byggja brýr milli ólíkra hópa sem hafa mismunandi skoðanir á loftslagsmálum.
Það er von okkar flutningsmanna að með þessu að ég vil kalla litla frumvarpi opnist góð gátt til viðbragðs gegn loftslagsvánni.