150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

tekjuskattur.

27. mál
[15:30]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég er einn flutningsmanna málsins og ég fagna því mjög. Ég ætla ekki að eyða tíma í að fara betur ofan í umrætt mál. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson gerði það mjög vel í framsögu sinni. Mig langar aðeins að fagna því framtaki sem hv. þingmaður sýnir með því að vinna og leggja fram þetta mál og sem fleiri hv. þingmenn hafa gert varðandi ýmis önnur mál þessu tengd. Það er nefnilega þannig, eins og við höfum mörg hver komið inn á í umræðum um loftslagsmál, að þegar að þeim kemur er ekki eitthvað eitt sem þarf að gera. Það þarf einfaldlega að gera allt sem gagnast. Þó að stjórnskipun okkar sé sú að málaflokkur þessi heyri undir ákveðin ráðuneyti og þar með talið ákveðinn hæstv. ráðherra eru þessi mál af þeirri stærðargráðu og svo víðfeðm að enginn einn getur haft yfirsýn yfir þau, hvað þá þær lausnir sem grípa þarf til til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að við öll sem í stjórnmálum störfum og erum í þeirri stöðu að geta lagt fram mál, og eins við öll í samfélaginu, komum á framfæri hugmyndum okkar að aðgerðum, lausnum, tillögum og skrefum sem hægt er að stíga og sem nýtast í þessum efnum. Það er okkar sameiginlega ábyrgð sem sitjum hér í þingsal. Við eigum að taka öllum tillögum fagnandi og ég vildi gera það sérstaklega hvað varðar þetta frumvarp.