mótun efnahagslegra hvata til að efla ræktun orkujurta á Íslandi.
Herra forseti. Ég kem hingað einu sinni enn í stólinn í dag vegna þess að við ræðum umhverfismál og þau standa mér nærri. Ég vil byrja á að fagna þessari þingsályktunartillögu þingmanna Framsóknarflokksins. Ég held að hún sé ákaflega athyglisverð og gæti leitt af sér mjög góðar framfarir í þeim efnum. Mig langar í leiðinni að vekja athygli á framleiðslu annars innlends eldsneytis í sjálfu sér. Hér frammi liggur skýrsla frá síðasta þingi um innlenda eldsneytisframleiðslu þar sem fjallað er um vetni sem gagnast bæði til að drífa áfram rafvélar og brunavélar á vissan hátt. Þar er rætt um framleiðslu á metanóli, alkóhólinu, sem við þekkjum frá framleiðslu Carbon Recycling í Svartsengi. Er þar rætt um metan, bæði úr sorphaugum og eins það sem er framleitt úr gróðurhúsalofttegund, sem er þá koltvísýringur. Hægt er að framleiða metan úr þeirri lofttegund, t.d. koltvísýringi sem kemur úr jarðhitaorkuverum eða þess vegna álverum. Þar er rætt um repjuna, vissulega, og einnig annan lífdísil.
Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að ég þreytist aldrei á að minna á það að rafvæðing, hvort heldur er einkabílaflotans, vinnuvélaflotans eða jafnvel hluta af skipaflotanum getur aldrei orðið eina leiðin í þessu. Við þurfum alltaf að fara líka aðrar leiðir einfaldlega vegna þess hvernig framleiðslu véla er háttað í heiminum og vegna þess að sumir af þeim orkugjöfum sem ég nefndi eru mjög hagkvæmir, einkanlega þegar kemur að stærri vélum, t.d. í báta, skip, jafnvel flugvélar og annað slíkt, eða jafnvel sem íblöndunarefni í eldsneyti eins og tíðkast með metanólið. Allt þetta verðum við að hafa í huga, ekki að leggja alla áherslu á — ég er ekki að segja að það sé gert í tengslum við þessa þingsályktunartillögu heldur er ég bara að tala um það almennt í samfélaginu — raforkuvæðingu og að orkuskiptin snúist fyrst og fremst um raforku. Það er ekki svo.
Aftur að repjunni. Við sjáum í greinargerð þingsályktunartillögunnar að ef ætti að nota repjuolíu á allan fiskiskipaflotann væri það 1.600 ferkílómetrar af ræktarlandi. Það slagar hátt í flatarmál Reykjanesskaga, en þá vil ég taka fram að það er í sjálfu sér ekki ókleift á Íslandi. Stundum hefur borið á gagnrýni á repjuræktun og lífdísil, jafnvel alkóhól, vegna þess að verið er að nota ræktarland til að framleiða þetta í staðinn fyrir matvæli handa hungruðum heimi, eins og sagt er stundum. Það á vissulega rétt á sér, einkanlega þar sem um er að ræða þéttbýl lönd, gamalt landbúnaðarland sem á að vera slíkt um aldir alda helst, ruddir skógar eða eitthvað því um líkt. Á Íslandi er til mjög mikið af svæðum sem eiga að vera gróin samkvæmt loftslagi, samkvæmt legu ofan sjávarmáls en eru það ekki og henta til hvers konar akuryrkju og matvælaframleiðslu en líka til repjuræktunar. Það er ekki ókleift að sjá fyrir sér 1.000–2.000 ferkílómetra af ræktanlegu landi undir repju, svo það sé sagt.
Mig langar í lokin á þessari ræðu, sem á að vera til að halda á lofti þessari ágætu þingsályktunartillögu, að ræða aðeins um annan lífdísil sem mér leikur viss hugur á að kynna og ræða um, í fyrsta lagi lífdísill unninn úr þörungum úr sjó. Þeir ljóstillífa, þurfa birtu og súrefni. Á Íslandi er mjög hagfellt að rækta þörunga út af jarðhita og út af nægu ljósi sem fæst að einhverju leyti með raforku, grænni raforku. Það er einnig út af því að við getum notað koldíoxíð til þess, sem er t.d. útblástur úr jarðhitaverum eða verksmiðjum fyrir þá skuld. Því er hægt að rækta hér mikið magn af þörungum. Og hvað gera menn við þá? Það hefur sýnt sig í störfum vísindamanna við Háskólann á Akureyri, ég nefni þar t.d. Hjörleif Einarsson prófessor, ég get nefnt Bláa lónið og ég get nefnt ýmsa framleiðendur fæðubótarefna, að hægt er að vinna mörg verðmæt efni úr þessum þörungum. Það eru litarefni, prótein, fjölsykrur og síðast en ekki síst olía. Og ef þetta er gert heildrænt, þörungarnir ræktaðir til að nýta nánast allt sem frá þeim kemur, þá er ekki útilokað að hluti af lífdísilframleiðslu á Íslandi geti verið unnin úr þörungum.
Hitt atriðið sem mig langar að minnast á eru ófrumbjarga smádýr sem þurfa ekki sömu skilyrði og þörungarnir. Þetta eru smádýr sem hafa gengið undir gælunafninu fitubólur af því að þetta eru litlar kúlur, frumstæð smádýr sem lifa aðallega í sjó og hafa fengið, út af latneska nafninu sem ég ætla ekki að fara með hér, viðurnefnið traustar; einn trausti og margir traustar. Þessir traustar eru svipaðir og þörungarnir, þ.e. gefa frá sér eða framleiða olíu sem er ekki ólík olíunni úr þörungunum og önnur efni sem hægt er að nýta, eins og glýserín og margs konar verðmæt efni sem hægt er að vinna úr þessum traustum, auk olíunnar sem hentar í lífdísil. Á þessum tveimur sviðum gætum við staðið fyrir ákveðinni þróun og létt undir eða aukið við þá repjuolíuframleiðslu sem hér er til umræðu.
Ég get nefnt það að nú um stundir er verð á svona þörungaolíu um 3–10 evrur á kílóið, það á við bæði um þörunga og þessa trausta. En þegar kemur að jarðolíu er um hálf evra á kílóið. Sést að langur vegur er þarna á milli. En það er einmitt hægt að þrengja hann, þrengja mismuninn með því að gjörnýta þessi dýr og þessar jurtir og ná mjög langt í því, ég tala ekki um á tímum loftslagsvár, að viðurkenna jafnvel að sumt eldsneyti getur verið dýrara en sú olía sem við notum og við verðum að sætta okkur við það. Allra síst megum við verða fyrir því að nýta ekki öll þau tækifæri sem náttúran býður okkur.
Herra forseti. Ég vil að lokum hvetja til framfara í innlendri eldsneytisframleiðslu, benda mönnum á að skýrslan er aðgengileg hjá Alþingi og hvetja til þess að lagðir séu fjármunir til þessara verkefna. Ég veit að búið er að taka ákvörðun um að hluti af framlögum Tækniþróunarsjóðs og Vísindasjóðs eigi að vera innan ramma loftslagsmála og þarna er kjörið tækifæri til að leggja fé í, ekki bara repjuræktun og vinnsluaðferðir og hvaðeina, heldur líka í þróun varðandi þörunga úr sjó og fitubólurnar.