150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

129. mál
[16:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er fínasta mál og ég íhugaði lengi að vera meðflutningsmaður á því en ákvað að gera það ekki í þetta sinn út af árunum 73. Mér finnst útfærslan þar ekki alveg nógu vel útskýrð. Hv. þingmaður fór hins vegar vel yfir það í ræðunni. Óháð útfærslunni er málið almennt séð mjög brýnt. Það sem mér finnst áhugaverðast í þessu öllu er að það er sagt í stefnu stjórnvalda að það eigi að auka atvinnuþátttöku aldraðra en samt er hámarksaldur. Hvernig á þá að breyta því? Ef það er hvort eð er hámark er ekki hægt að auka þátttökuna umfram það.

Það er ákveðið verkefni í fjárlagafrumvarpinu um aukna þátttöku aldraðra o.s.frv., þar sem hlýtur að þurfa að tækla nákvæmlega það lagaákvæði sem er til umræðu hérna. Það er augljóst. Þar af leiðandi ætti að vera auðvelt að fara með þetta mál í gegn, hvort sem árin eru nákvæmlega 73 ár eða einhver önnur útfærsla, í staðinn fyrir að gera eins og venjulega sem er að ríkisstjórnarflokkarnir vilja að þeirra frumvarp sé samþykkt og þá er þessu kippt út og ríkisstjórnarfrumvarp sett í staðinn. Ég nenni ekki að sjá svoleiðis pólitík, mér finnst hún ógeðslega léleg. Ég tek því heils hugar undir með hv. framsögumanni og flutningsmönnum. Þetta er augljóslega skref í áttina að því sem meira að segja að ríkisstjórnarflokkarnir vilja, að laga nákvæmlega þetta lagaákvæði. Sem slíkt ætti ekki að vera flókið að rúlla þessu í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd.