150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

skylda ferðaþjónustuaðila til að bjóða upp á kolefnisjöfnun við sölu á þjónustu.

43. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um skyldu ferðaþjónustuaðila til að bjóða upp á kolefnisjöfnun við sölu á þjónustu. Meðflutningsmenn mínir að málinu eru hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson, Ásmundur Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson. Í tillögunni er gert ráð fyrir að þrír ráðherrar, þ.e. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, vinni í sameiningu lagafrumvarp sem skyldi söluaðila í ferðaþjónustu til að bjóða upp á kolefnisjöfnun. Það er hins vegar gert ráð fyrir að þeir hafi tíma fram að haustþingi 2020, enda má gera ráð fyrir að undir verði nokkrir lagabálkar sem þarf að skoða til að ná þessum markmiðum fram.

Eins og kunnugt er hafa íslensk stjórnvöld sett fram metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum og stefnt er að því að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Þessi mál eru einnig mjög mikið í deiglunni á alþjóðavettvangi eins og hv. þingmenn hafa vafalítið orðið varir við. Því er mikilvægt að við sýnum svolítinn lit með því að ýta við mönnum og fyrirtækjum að taka þessi skref.

Við hv. þingmenn höfum líka orðið vör við að sér í lagi ungmenni, ekki bara hér á Íslandi heldur úti um allan heim, eru mjög að vakna til vitundar um mikilvægi loftslagsmála, mikilvægi þess að brugðist sé við. Þá er það álit mitt og vafalítið margra annarra flutningsmanna tillögunnar að þar verði að velta við hverjum steini. Það þurfi að taka á sem flestum málum í þessu. Sem betur fer eru ýmsir aðilar í ferðaþjónustu þegar farnir að bjóða upp á kolefnisjöfnun en það er langt í land með að markmiðið náist. Reyndar gerir tillagan ráð fyrir að það þurfi breytingu á allnokkrum lögum til að ná markmiðinu. Flutningsmenn telja mikilvægt að það verði valkvætt fyrir neytandann, alla vega í fyrstu, að meta hvort honum þyki mikilvægt að nýta sér þjónustutilboð af þessu tagi en skylda um framboð liggi hins vegar hjá söluaðilanum. Þetta er mikilvæg til að vekja neytendur til vitundar um kolefnissporið sem kann að hljótast af ferðalögum þeirra en jafnframt gera þeim kleift að bregðast við með jákvæðum hætti.

Flutningsmenn telja að með því að skylda kaupendur til að kaupa sér kolefnisjöfnun fremur en að hafa hana valkvæða kynni breytingin að vera of íþyngjandi, bæði fyrir söluaðila og neytendur, og því er valin leiðin sem hér er lögð til. Ímyndaruppbygging er mjög mikilvæg fyrir land eins og Ísland sem ætlar sér á næstu árum og áratugum að hafa ferðaþjónustuna sem eina af stoðatvinnugreinum sínum. Einmitt í slíkri þjónustu skiptir gríðarlega miklu máli að þeir sem koma til landsins og kaupa þjónustuna hafi á tilfinningunni að hér sé raunverulega verið að gera eitthvað til að bregðast við.

Við höfum líka heyrt talað um hluti eins og „flugviskubit“, sem er sennilega nýjasta tískuorðið, alla vega á síðustu misserum. Það má þó segja að þessi leið sé a.m.k. ein leið til að hjálpa fólki að sefa þá vanlíðan sem af slíku kann að hljótast. Auðvitað er það ekki aðalatriðið heldur hitt að koma því inn í heildarhugsun allra, ekki bara ferðaþjónustuaðila heldur allra, að þetta sé eitthvað sem skiptir máli og að við grípum til aðgerða. Flutningsmenn benda á að flest ferðaþjónustufyrirtæki, ef ekki öll, uppfæra kynningarefni sitt reglulega. Það er orðið í langflestum tilfellum á einhvers konar heimasíðu, vefsíðu eða fésbókarsíðu eftir atvikum. Því ætti það að skylda fyrirtækin til að vera með tilboð af þessu tagi ekki að vera þeim neitt sérstaklega íþyngjandi. En á hinn bóginn getur það gert að verkum að það þurfi að vera nægur umþóttunartími fyrir fyrirtækin og einnig fyrir stjórnvöld til að bregðast við. Eins og áður hefur komið fram má gera ráð fyrir að það verði töluverð handavinna, skulum við segja, af hálfu þeirra ráðuneyta sem undir eru við að vinna þær lagabreytingar sem þörf er á til þess að þetta verði að veruleika. Þess vegna er í tillögunni gert ráð fyrir að viðkomandi ráðuneyti hafi tiltölulega rúman tíma, þ.e. fram á haustþing 2020, til að klára vinnslu málanna.

Nú verður forseti líklegast að leiðbeina mér. Til hvaða nefndar er heppilegast að þetta mál fari?

(Forseti (BHar): Atvinnuveganefndar.)

Líklega ætti atvinnuveganefnd þarna best við og ég hlakka til að sjá þar umsagnir og úrvinnslu nefndarinnar á málinu.