árangurstenging kolefnisgjalds.
Virðulegi forseti. Þetta mál er nú lagt fram í annað skipti, það var einnig lagt fram á síðasta löggjafarþingi, og hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra að leggja fram frumvarp til breytinga á kolefnisgjaldi á þá leið að gjaldið hækki eða lækki í samræmi við árangur við að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamningnum árið á undan og markmið við að ná kolefnishlutlausu Íslandi fyrir 2040. Ráðherra leggi frumvarpið fram eigi síðar en á vorþingi 2020.“
Til að tryggja enn betur árangur af því tæki sem við höfum, kolefnisgjaldinu, er lagt til að gjaldið hækki í veldisvexti ef illa gengur að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamningnum og markmiðinu um kolefnishlutlaust Ísland fyrir 2040 en að sama skapi lækki gjaldið töluvert ef góður árangur næst við minnkun útblásturs og losunar.
Á síðasta löggjafarþingi bárust umsagnir vegna málsins frá Umhverfisstofnun og Viðskiptaráði Íslands. Í umsögn Umhverfisstofnunar var bent á að rauntölur um losun birtast ekki fyrr en tveimur árum síðar. Umhverfisstofnun benti jafnframt á að hún framreiknar áætlaða losun fram í tímann miðað við stefnu og aðgerðir sem eru í gildi hverju sinni. Þessi framreikningur ætti að duga til þess að ná markmiðum þessarar tillögu, rétt eins og áætlun um þróun verðlagsvísitölu er notuð til þess að reikna launabætur og þess háttar í fjárlögum hvers árs. Auðvitað væri betra að rauntölur væru aðgengilegar fyrr og hvetja flutningsmenn Umhverfisstofnun til þess að leitast við að gera losunarbókhald aðgengilegt fyrr. Það má til að mynda gefa út endurmat á áætlunum miðað við nýjustu upplýsingar með reglulegu millibili. Flutningsmenn hvetja einnig Umhverfisstofnun til þess að sjá til þess að slíkt bókhald sé uppfært og birt með sem sjálfvirkustum hætti.
Flutningsmenn — sem eru þingflokkur Pírata — leggja áherslu á að kolefnisgjaldið skuli vera notað í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, m.a. til að styðja við og styrkja þá aðila sem losa mest til þess að draga úr losun. Bent er á að markmið hækkunarinnar er að kostnaður vegna losunar skili sér til þeirra sem losa og því verði aðrar opinberar álögur ekki lækkaðar vegna hækkunar kolefnisgjalds. Þetta er nefnilega gjald sem á að úrelda sjálft sig þannig að við eigum að hvetja til þess að losunin klárist sem fyrst, að við hættum að losa og þar af leiðandi þurfi enginn að borga kolefnisgjald og allir vinni.
Hnattræn hlýnun jarðar sökum kolefnisútblásturs af mannavöldum er stærsta ógn sem steðjar að mannkyni og samfélagi manna. Hún hefur mikil áhrif á byggð við strendur, t.d. út af hækkun sjávarborðs, og veldur breytingum á ýmsum veðurfarsskilyrðum fyrir landbúnað þar sem gróðurmörkin eru sífellt að færast norðar. Það gerir að verkum að á þeim stöðum þar sem nú er verið að rækta gríðarlega mikið magn þeirra matvæla sem við neytum verða ekki eins góð skilyrði fyrir ræktun og nú er. Jarðveginn norðar þarf að vinna upp og gera hæfari til að taka við þessum plöntum. Þar er gríðarlega stórt mál undir.
Álagningu kolefnisgjalds hefur verið beitt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og er hún ein þeirra aðferða sem hefur bein áhrif á fjárhagslega afkomu fyrirtækja og einstaklinga. Hún er aðferð sem þjóðir heimsins hafa komið sér saman um að sé nokkurn veginn eina leiðin. Það var gert í Kyoto-bókuninni eða á sama tíma og hún var gerð, sammælst var um að þetta væri tækið sem mætti beita til að láta kostnaðinn falla þar sem hann verður til. Ýmis önnur kerfi eru þar innan líka, eins og kvótakerfi um mismunandi losun o.s.frv., en alla vega er þetta tækið sem þjóðir heimsins komu sér saman um að gæti virkað.
Hugmyndin að þróun þessa þingmáls varð til á Lýsu – rokkhátíð samtalsins sem var haldin á Akureyri haustið 2018 þar sem almenningi gafst tækifæri til að koma með tillögur og hugmyndir að aðgerðum í loftslagsmálum. Það var mjög áhugavert að sjá hve margar hugmyndir komu upp, taka umræðuna á fundi með gestum og gangandi, ná í heildina saman nýrri hugsun um hvernig við getum saman tekið þátt í að bæta úr í loftslagsmálum. Ég hef séð að undanfarna föstudaga hafa í þó nokkurn tíma verið mótmæli hér fyrir utan þar sem er kallað á aðgerðir núna strax. Mér finnst ánægjulegt að sjá að á dagskrá þessa þingfundar eru a.m.k. fimm mál sem varða loftslagsmál á einhvern hátt. Frádráttur vegna kolefnisjöfnunar, ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi, mótun efnahagslegra hvata til að efla ræktun orkujurta, árangurstenging kolefnisgjalds, að sjálfsögðu, og skylda ferðaþjónustuaðila til að bjóða upp á kolefnisjöfnun við sölu þjónustu. Það vantar ekki hugmyndir en það vantar bara að klára hlutina. Það er ótækt, finnst mér, að málin sem hingað renna inn, hugmyndirnar sem koma og eru ákveðið svar við kallinu hérna fyrir utan um að það vanti aðgerðir strax, að hugmyndirnar koma en það vantar að ná þeim alveg í gegn og byrja að tækla þetta. Við Píratar erum með þrjú önnur mál sem við höfum lagt fram varðandi t.d. úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem er mjög mikilvægt, mál um kjötrækt og svo grænan samfélagssáttmála sem við unnum í samvinnu við þingflokk Samfylkingarinnar. Möguleikarnir eru til staðar fyrir þingið, alveg tvímælalaust. Ég held að ég hafi séð þingmál sem varða umhverfismál á einhvern hátt frá öllum flokkum. Það eina sem við þurfum er að klára þau í nefndum, koma þeim út úr nefndum og fá fólk til að greiða atkvæði um þau. Það er það sem hefur vantað gríðarlega oft með öll þingmál, hvað þá umhverfismálin, að fá þau hingað inn í þingsal þannig að fólk geti greitt atkvæði og hrundið þeim aðgerðum sem er kallað eftir strax í verk. Þetta er eitt af þeim.