150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

árangurstenging kolefnisgjalds.

75. mál
[16:54]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna og fyrir að koma með þetta áhugaverða mál inn í þingið. Ég get sagt að ég styð eindregið þessa hugsun. Ég held að megintilgangur kolefnisgjalda sem slíkra sé í raun og veru að útrýma skattstofninum sem þau eru lögð á. Að við finnum leiðir til að nota umhverfisvænni orkugjafa og þar af leiðandi verði tekjur í framtíðinni af kolefnisgjöldum vonandi sem minnstar af því að þau hafi skilað árangri. En þá þarf að huga að því að þau séu nægjanlega há til að bíta og höfð sé hliðsjón af þeim markmiðum sem við höfum sett okkur, t.d. í orkuskiptum og í að draga úr losun. Mér finnst þetta mjög áhugaverð nálgun og vel þess virði að skoða nánar hvort ekki sé rétt að stilla þau af og hækka — eða lækka, sem er kannski ólíklegt — ef við sjáum fram á að við séum ekki að ná árangri.

Ég beini einni spurningu til hv. þingmanns sem mér þykir mjög áhugaverð. Nú vitum við t.d. að bensínverð sveiflast um tugi króna yfir lengri tímabil og jafnvel innan hvers árs. Við höfum séð tímabil mjög hás eldsneytisverðs og mjög lágs eldsneytisverðs. Auðvitað er hvatinn til orkuskipta þeim mun meiri sem eldsneytisverð er hærra. En þegar við erum með kolefnisgjald sem er 10 kr. en kannski verðsveiflur sem geta verið 30–50 kr., jafnvel innan árs, hef ég heyrt þeirri áhugaverðu hugmynd fleygt fram hvort ekki væri rétt að einfaldlega leyfa kolefnisgjaldi að sveiflast líka aðeins með bensínverði þannig að ef bensínverð lækkar mjög mikið, sem vinnur beinlínis gegn markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum, dregur úr hvata til orkuskipta, væri kolefnisgjaldi leyft að hækka á móti. Ég velti fyrir mér hvort flutningsmenn þessarar tillögu hafi hugleitt (Forseti hringir.) slíka möguleika til viðbótar við þá hugmynd sem þarna er sett fram.