150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

árangurstenging kolefnisgjalds.

75. mál
[16:58]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er áhugaverð umræða. Með þessari vangaveltu er ég ekki að segja kolefnisgjald eiga að breytast frá degi til dags heldur verði kannski horft til 12 mánaða meðalverðs eða eitthvað því um líkt og kolefnisgjaldið stillt aðeins af á móti. Það skýtur með ákveðnum hætti skökku við ef við erum að tala um ákvörðun um að hækka kolefnisgjald um 1–2 kr., eins og hefur reyndar vakið mikla umræðu í þessum sal og mikla gagnrýni jafnvel, og ákveðum á sama tíma að hækka eldsneytisgjöld um 5–7 kr. en sú hækkun siglir undir radar. Ofan á það allt saman kann síðan að vera að sveiflur, sem geta verið lengri tíma sveiflur líka, á eldsneytisverði dragi verulega úr hvata til orkuskipta, sem er jú tilgangur kolefnisgjaldsins sjálfs.

Það er kannski vert að hafa í huga, þó að ég sé ekki það bjartsýnn maður að halda að við séum endilega að horfa á þá framtíð á næstunni, að ef okkur verður ágengt í að útrýma eða draga verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis kann að koma upp sú staða að eldsneytisverð fari jafnvel lækkandi einfaldlega út af minnkandi eftirspurn, sem aftur fer þá að vinna gegn markmiðum okkar í loftslagsmálum. Það er þess vegna sem ég velti upp þessari hugmynd og þætti áhugavert að einhverjar slíkar vangaveltur væru skoðaðar í nefndinni. Ég heyrði fullyrt af hálfu sérfræðinga í orkuskiptum að ef við hefðum gert eitthvað slíkt yfir þriggja, fjögurra ára tímabil, jafnað út millilangar sveiflur með hækkun kolefnisgjalds, hefðum við getað borgað með tekjunum af því innviðauppbygginguna í orkuskiptum hvaða rafmagn varðar, hleðslustöðvar hringinn í kringum landið. En mér finnst þetta alla vega áhugaverð hugmynd að velta fyrir sér.