150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

árangurstenging kolefnisgjalds.

75. mál
[17:02]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þessa áhugaverðu þingsályktunartillögu. Hvað varðar að koma losun niður sem fyrst held ég að við getum öll verið sammála um að þá er aðallega spurningin hvort það sé rétta leiðin að auka álögur á borgarana almennt, því að eins og hv. þingmaður bendir á verðum við öll að leggja okkar af mörkum og taka þátt. Nákvæmlega þessi aðferð í sambandi við kolefnisgjaldið? Ég var að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi eitthvað spáð í eða ígrundað betur á hverjum hún myndi helst bitna, hvort við ættum ekki samfélagshópa sem gætu hreinlega ekki farið í þessi orkuskipti að óbreyttu og hvort það væri ekki í rauninni stjórnvalda að reyna að koma til móts við einstaklinga enn frekar og sýna í verki ef þeir ætluðu að aðstoða fólk við að reyna t.d. að komast á rafmagnsbíl í stað þess að brenna jarðeldsneyti. Í raun og veru er sárara en tárum taki að horfa upp á endalausar yfirlýsingar um auknar álögur — auknar álögur, auknar álögur — á meðan við vitum að úti er þjóðfélagshópur sem keyrir um á gömlu druslunni sem brennir allt of mikilli olíu eða bensíni og spýr bláum reyk og fólk hefur ekki einu sinni efni á að láta laga vélina, með allt of lausum ventlum og nefnið það bara. Maður fær bara sting að horfa upp á allan útblásturinn og hryllinginn frá því. En hvað eru stjórnvöld í raun og veru að gera í þeim efnum að reyna að koma til móts við þá einstaklinga? Að kaupa sér rafmagnsbíl eru 4 milljónir plús og ef þú færð einn á 4 milljónir veit ég ekki hvort hann dregur frá Grafarholti niður í Háskóla Íslands, ég er ekki alveg viss, svo ég ýki nokkuð gróflega. Enginn sem er með undir 300.000 kr. á mánuði gæti mögulega, eins og staðan er í dag, fært sig yfir í það sem við erum að boða og við þráum að geta séð í framkvæmd, því miður.