150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

árangurstenging kolefnisgjalds.

75. mál
[17:08]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Áhættan er vissulega mikil og þeir hópar sem hv. þingmaður talar fyrir, sem ég tel mig líka tala fyrir, stríða við vandamál sem liggja tvímælalaust annars staðar en í kolefnisgjaldinu. Ef það er ekki hægt að hækka kolefnisgjaldið um nokkrar krónur, sem hefur í rauninni krónuáhrif á einstaklinga, mun meiri áhrif á stórnotendur, erum við að gera þeim mun verr í þeim jöfnunarkerfum sem við erum með. Þar eru tvímælalaust vandamál eins og hv. þingmaður kannast við. Ég sé þau ekki sem vandamál fyrir kolefnisgjaldið. Það ætti alls ekki að gera það að óvini tekjulágra hópa því að vandamálin eru í jöfnunarkerfunum sem við glímum við að eru flókin og léleg, með alls konar skerðingum fram og til baka. Kolefnisgjaldið er alls ekki óvinur okkar. Kerfið er þar sinn eigin óvinur að miklu leyti. Ég lít alveg tvímælalaust svo á, ég hef þá alla vega von þegar ég legg fram þessa tillögu með þingflokki Pírata, að það að hafa hvatann og möguleikann til að lækka gjaldið feli í sér mikinn fjárhagslegan ávinning vegna þeirra sem það bítur mest, með stórum upphæðum, stórnotendur, hvatinn er sá að þeir geri eitthvað í því sem allir geti þá hagnast á. Ef við tökum líka þátt, þau okkar sem nota ekki það mikið af jarðefnaeldsneyti og borga ekki hundruð eða milljónir í kolefnisgjald, ef við leggjum smá í púkkið umfram þær væntingar sem eru gerðar til okkur lækkar gjaldið enn þá meira. Ég sé ekkert nema jákvætt hvað þetta varðar.