150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

hagsmunafulltrúi aldraðra.

69. mál
[17:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um hagsmunafulltrúa aldraðra sem Flokkur fólksins stendur að. Í því samhengi er ágætt að minna á að þó að málið snúist eingöngu um aldraða varðar það líka öryrkja vegna þess að þegar öryrki verður 67 ára gamall hættir hann að vera öryrki og verður eldri borgari. Þá er brotið á réttindum hans, að því er ég tel, því að þá lækka lífeyrislaun hans. Það er einmitt mál sem hagsmunafulltrúi aldraðra gæti tekið upp. Við það að öryrki verði 67 ára og breytist í eldri borgara ætti hann eiginlega að fá meira fjármagn þar sem engin hætta er á veikindi hans fari batnandi við hækkaðan aldur heldur veldur í mörgum tilfellum fötlun viðkomandi einstaklings honum enn meiri erfiðleikum.

Ekki veitir af að fá hagsmunafulltrúa aldraðra. Við höfum orðið vitni að því þegar eldri borgari er útskrifaður af sjúkrahúsi, fer heim til sín og það uppgötvast fyrir tilviljun að það eina sem hann á í ísskápnum er lýsisflaska. Það segir okkur að því miður eru til eldri borgarar sem enginn hugsar um og eiga þar af leiðandi á hættu að svelta. Við höfum búið til hið fáránlega orð „fráflæðisvanda“ um eldri borgara á sjúkrahúsum og það er þekkt að á sjúkrahúsum eru eldri borgarar eiginlega í geymslu á göngum, margir saman í herbergi. Sjúkrahúsið er sagt vera stíflað vegna fráflæðisvanda eldri borgara en það er rangt. Vandamálið er ríkisstjórn hvers tíma sem sér ekki til þess að til séu úrræði fyrir viðkomandi eldri borgara með því að taka á vandanum með hjúkrunarheimilum. Það eru líka vandamál uppi með hjúkrunarrými. Mörg mál eru þar undir sem hagsmunafulltrúi aldraðra gæti tekið á. Þá er ónefnd heimaþjónustan. Það er með ólíkindum að enn þá skuli vera við lýði að eldri borgarar, komnir hátt á níræðis- eða jafnvel tíræðisaldur, séu útskrifaðir og sendir heim til sín þar sem maki á að hugsa um viðkomandi, jafnan á svipuðum aldri og jafnvel veikur og án nokkurrar aðstöðu til að taka við viðkomandi. Í svona tilfellum á hagsmunafulltrúi aldraðra að bregðast við.

Í umræðunni í gær um tillöguna sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson lagði fram um að gerð yrði úttekt á þessu og ég tók undir, fylgdi sögunni að það vantaði samtök á borð við Öryrkjabandalagið til að sjá um að gæta hagsmuna öryrkja þegar þeir verða eldri borgarar svo að einhver verji hagsmuni þeirra. Það er frábær tillaga og löngu tímabært að þessi hópur fái málsvara vegna þess að það hefur því miður verið staðreynd að ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur ekki tekið hóp aldraðra undir verndarvæng sinn eða borið hag hans fyrir brjósti.

Staðreyndin er sú að 10% eldri borgara lifa í fátækt og önnur 10% dansa á línu fátæktar. Við vitum líka um hið ljótasta af öllu ljótu, eldri borgara sem lifa langt undir fátæktarmörkum, í sárri fátækt og eiginlega í svelti. Það er okkar skömm líka vegna þess að þar er líka inni fólk af erlendu bergi brotið sem við höfum boðið velkomið, fólk sem hefur komið til Íslands og gerst íslenskir ríkisborgarar. Við skerðum það gróflega með búsetuskerðingum að þetta fólk á sér ekki viðreisnar von að lifa hérna. Það er ljótur hængur á okkar kerfi að bjóða fólk velkomið, leyfa því að setjast hér að en veita því ekki full réttindi og sjá ekki til þess að það geti lifað með reisn í okkar samfélagi.

Ég vona að þessi tillaga hljóti framgang og að við sjáum sóma okkar í að taka málefni eldri borgara föstum tökum og sjá til þess að þeir fái full réttindi eins og þeim ber.