fræðsla um vefjagigt og endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu.
Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur kærlega fyrir framlagningu þessarar þingsályktunartillögu. Ég veit að hún er endurflutt og ég var ein af flutningsmönnunum síðast, mér finnst mjög miður að hafa fallið út en ég lýsi a.m.k. yfir miklum stuðningi við þingsályktunartillöguna. Ég held að við séum að ræða um mjög mikilvægt mál og hv. þingmaður kom mjög vel inn á það. Ég vil líka hrósa ítarlegri og góðri greinargerð með tillögunni.
Hv. þingmaður kom aðeins inn á að þetta sé svolítið þögull sjúkdómur sem hafi hrjáð konur í meiri mæli en karla, þó að hann geti vissulega hrjáð bæði kynin. Ég kom inn á það í ræðu ekki alls fyrir löngu að eitt af því sem kom út úr velsældarhagkerfisvinnunni okkar, eða þess starfshóps, var einmitt hvað lífaldur kvenna á Íslandi við góða heilsu hefur farið niður á við. Við búum við tiltölulega háan lífaldur en lífaldur við góða heilsu er eitthvað sem við þurfum að horfa til. Þar sést greinilega að frá hruni eða eftir 2009 hefur lífaldur kvenna við góða heilsu farið niður á við. Væri mjög æskilegt að gerð yrði einhver úttekt á því og vöngum velt yfir því hvað gæti orsakað það. En maður veltir fyrir sér svona sjúkdómum, sem ég veit að geta einmitt komið út frá álagi og áhyggjum og öðru þess háttar, það gæti verið ein ástæðan, og þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að finna meðferðarúrræði við því.
Mig langar að spyrja hv. þingmann út í eitt atriði, vegna þess að hún nefndi sérstaklega Þraut, sem er þverfagleg sjálfstætt starfandi eining á heilbrigðissviði. Mér varð ljóst að samningur þeirra við Sjúkratryggingar átti að renna út á síðasta ári. Er hv. þingmanni ljóst hvernig það mál fór? Er í gildi samningur við Þraut ehf. eða ekki?