fræðsla um vefjagigt og endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að koma upp og styðja þetta mál. Ég hefði viljað hafa hana með, við vorum að leita eftir meðflutningsmönnum en eitthvað hefur farist fyrir að ná í hv. þingmann.
Hv. þingmaður spyr um Þraut, sem er held ég afar góð og gagnreynd meðferðarstofnun og er einkarekin, vissulega, og hef kynnt mér þá starfsemi. Ég hef ekki þær upplýsingar núna hvort hún sé komin með samning við Sjúkratryggingar, því að samningur hefði runnið út á síðasta ári, og ég hef heldur ekki heyrt um það hvort samningur hafi náðst, en ég vona að sá samningur hafi verið framlengdur því að mjög mikilvægt starf er unnið þar, eins og svo sem er gert á fleiri stofnunum. En Þraut hefur sérstaklega einbeitt sér að vefjagigt og læknirinn þar heitir Arnór Víkingsson og er mjög fær í þessum efnum og hefur aðstoðað mig mikið við gerð þessarar þingsályktunartillögu og opnað augu mín fyrir mikilvægi þessa sjúkdóms, að það verði vitundarvakning um hann, bæði hjá heilbrigðiskerfinu og eins sem fræðsla hjá almenningi og fordómum útrýmt.