150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

fræðsla um vefjagigt og endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu.

36. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessar vangaveltur hv. þingmanns. Ég tek vissulega undir að það er mikilvægt starf sem er unnið hjá Þraut og á fleiri stöðum. Þetta skiptir allt máli. Ég tel að með þessari þingsályktunartillögu, nái hún í gegn, séum við að byggja undir þetta starf, hvort sem það er hjá einkaaðilum eða annars staðar þar sem tekið er utan um þetta. Það skiptir máli. Ég held að þeim fjármunum sem er varið í bæði fræðslu og endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið komi allt til með að spara okkur mikinn pening vegna þess að margir eru frá vinnu út af þessum sjúkdómi og eiga illa afturkvæmt. Og sérstaklega líka vegna þess að sjúkdómurinn leggst mjög illa andlega á fólk og konur. Þetta er hinn þögli sjúkdómur sem kallaður er vegna þess að hann hefur ekki verið viðurkenndur, enda er hann ekki formlega skilgreindur sem sjúkdómur fyrr en árið 1993. Það er ekki einu sinni ein kynslóð síðan þetta var viðurkennt.