150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Hugtakið kolefnisjöfnun mun lita störf þingsins á næstunni og trúlega nokkuð lengi. Kolefnisjöfnun mun brátt teljast með í kolefnissamningum, útreikningum á kolefnisspori, í gegnum EES-samninginn. Það mun ekki minnka skyldur okkar við losun en mun hjálpa okkur engu að síður. Við tölum oft um grænt kolefni, þ.e. skóga, jarðveg og endurheimt votlendis, sem lið í kolefnisjöfnun og byggjum þar á vísindalegum grunni sem er nægur til þess að við getum aðhafst án þess að vera að syndga neitt.

Herra forseti. Ég ætla að vekja athygli á sjaldræddri kolefnisbindingu, þ.e. kolefnisbindingu í sjó. Við köllum það blátt kolefni í mótstöðu við grænt kolefni og þetta eru lífverur sem geta bundið töluvert mikið af kolefni. Þarna er um að ræða lífmassa í strandsjó. Þetta eru þörungar, þang og þari og erlendis bætast við svokallaðar saltmýrar, sægras og trjágróður sem við þekkjum undir heitinu „mangrove“. Allt hefur þetta verulega bindigetu þegar til langs tíma er litið og svona blátt kolefni er mjög víða hér við land. Breiðafjörður er sérstakt verndarsvæði og þar er t.d. mikið af þessu og þá þurfum við að gæta að tvennu í framhaldinu að mínu mati, þ.e. frekari friðlýsingum í svipuðum dúr og á Breiðafirði og — ég hef aðeins rætt það við hæstv. umhverfisráðherra — bera gæfu til þess að nota eða nytja þang og þara á Íslandi og þörunga á sem mest sjálfbæran hátt. Í stuttu máli: Við skulum taka blátt kolefni með í reikninginn.