150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir ræðuna áðan. Það eru einmitt svoleiðis stjórnmál sem ég vil stunda þar sem við komum til varnar þvert yfir flokkslínur. Í kringum hádegið var haldinn kynningarfundur um samkomulag ríkisins við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Þar var efnislega ekkert fjallað um samkomulagið sjálft nema að því leyti að útskýra hvaða samgönguframkvæmdir, sem eru á samgönguáætlun, eru hífðar upp og á að fara í fyrr en samkvæmt samgönguáætlun. Þar er dregin upp úr hattinum fjármögnun um 60 milljarða sem á að vera í formi veggjalda og ýmislegs svoleiðis. Farinn er í gang einhvers konar svartapétursleikur um það hver beri ábyrgð á því að koma á veggjöldum. Mér finnst það áhugavert. Mér fannst koma alveg kýrskýrt fram á fundinum í morgun að ekkert veggjald yrði tekið án heimildar þingsins. Þegar allt kemur til alls er það ákvörðun þingsins hvort það verður veggjald eða ekki. Enginn getur kvittað á eitthvert samkomulag úti í bæ og sagt: Það verður þá bara að vera þannig.

Þegar upp er staðið er það þingið sem þarf að búa það til og koma að því.

Samt er talað um þverpólitíska sátt en eina sáttin sem ég get séð er bara um nauðsyn þess að fara í þessar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og að það þurfi að fjármagna þær, sama hvað. Ég hef ekki hugmynd um hvernig einhverjum dettur í hug að halda að það sé þverpólitísk sátt um veggjöld til að fjármagna nauðsynlegar samgönguframkvæmdir. Ef það er eitthvað sem einhverjir halda fram verður það bara að koma í ljós í þingsal.

Þarna er ýmislegt annað nefnt en þetta er það sem mér finnst vera lykilatriði, að við reynum aðeins að horfa í gegnum þennan svartapétursleik sem er í gangi og vera á yfirveguðum nótum um það hver beri ábyrgð.