150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fylgdist svo sem ágætlega með Brexit-umræðunni á sínum tíma og kosningunum. Ég held að ef við förum sanngjarnt yfir það hvernig málflutningurinn var á báða vegu hafi margt verið sagt og mig minnir að það hafi verið sú virta stofnun Bank of England sem þurfti að biðjast afsökunar út af spám sem þeir voru með ef Bretar myndu samþykkja að fara út. Boðað var að ef það yrði samþykkt að fara út yrðu sett neyðarlög, sem svo aldrei komu, þannig að einhver dæmi séu tekin. Ýmislegt annað var sagt í hita leiksins en stóðst sem betur fer ekki. Síðan geta menn alltaf deilt um það hvor hafði meira rangt fyrir sér eða hvernig menn gengu fram. En við gerum það líka, virðulegi forseti, eftir hverjar einustu kosningar á Íslandi, ef ég man rétt.

Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta snýst ekki bara um fríverslun en af því að hann nefndi litlu þjóðina var ég að nefna að það eru kostir og gallar við það. Ég hef sagt t.d. að allir eigi mikið undir alþjóðalögum en sérstaklega við Íslendingar, m.a. af því að við erum lítil þjóð. Ég held að það sé ekkert að því. Við getum ekki hótað neinum og hv. þingmaður getur verið alveg rólegur með það að ég er ekki að undirbúa neitt íslenskt belti og braut. Það liggur alveg fyrir.

Varðandi það ef Bretar fengju betri viðskiptakjör en Íslendingar gagnvart ESB er það þannig, virðulegi forseti, að eitt af því sem ég er að reyna að gera er að sækja betri viðskiptakjör til Evrópusambandsins og þá sérstaklega í því sem snýr að sjávarafurðum. Ef það myndi gerast milli Bretlands og Evrópusambandsins hugsa ég að það myndi styrkja stöðu okkar hvað það varðaði, að geta bent á slíkt fordæmi. Ég lít ekki svo á að við töpum ef einhverjir aðrir auka viðskipti sín, allra síst nánustu samstarfslönd okkar. Ég þreytist hins vegar ekki á því og mun aldrei (Forseti hringir.) þreytast á því að halda uppi hagsmunum Íslands og mér finnst Evrópusambandið ekki breyta rétt þegar kemur að t.d. viðskiptum okkar við sjávarútveg.