150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

valfrjáls bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

46. mál
[17:32]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um undirritun og fullgildingu valfrjálsrar bókunar við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Tillagan var áður lögð fram á 147., 148. og 149. löggjafarþingi og er nú endurflutt að mestu óbreytt í fjórða skiptið. Kannski að hún nái í gegn í þetta skipti.

Sögu samningsins um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, og um mikilvægi hans, er að finna í greinargerðinni og hún var einnig reifuð af mér þegar ég mælti fyrir málinu á seinasta þingi. Mér finnst óþarfi að endurtaka þá ræðu en langar samt að segja að á undanförnum árum og áratugum hefur vægi þessara réttinda, þ.e. efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda, aukist mikið. Með undirritun og fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samninginn mætti stuðla að aukinni vernd þessara réttinda. Þannig yrði komið á sambærilegri kæruleið fyrir þau réttindi sem varin eru í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Það er orðið langt síðan Ísland varð aðili að þessum samningi og staðfesti mikilvægi réttindanna sem hann verndar, bæði með breytingum á lögum og stjórnarskrá en einnig fyrir dómstólum. Með því að undirrita og fullgilda valfrjálsa bókun við samninginn verður kærunefnd sem starfar samkvæmt samningnum gert kleift að taka við erindum frá einstaklingum á Íslandi.

Með því að stíga þetta skref má auka vernd þessara mikilvægu réttinda og er því lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að undirrita fyrir Íslands hönd og fullgilda valfrjálsu bókunina við alþjóðasamninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Meira hef ég ekki um það að segja í bili, annað en að það er einlæg von mín að þessu máli gangi betur í meðferð nefndarinnar og komist til síðari umræðu og að við náum að sameinast um að stíga loksins þetta skref.