150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:09]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er allt sem löggjafinn sem og heilbrigðiskerfið fæst við „bara úrlausnarefni“. Það er samt ákveðið flækjustig, t.d. er færni- og heilsumatið þannig í dag að það eru að lágmarki þrír aðilar sem þurfa að koma að því, í flestum tilfellum félagsráðgjafi, öldrunarlæknir og hjúkrunarfræðingur. Ef sækja þarf mikið af ytri upplýsingum þarf að sækja þessar ytri upplýsingar. Til að tryggja gagnsæi og það að menn séu ekki að taka einhvern fram fyrir í röðinni, séu ekki að hygla einhverjum, hafa menn ekki beinan aðgang að sjúkraskrám. Menn hafa ekki beinan aðgang að öllu, heldur eru færni- og heilsumatsnefndunum sendar upplýsingar. Þær fá upplýsingar eftir því sem þær biðja um en það er ekki hægt að halda því fram að það sé hægt að hrista þetta fram úr erminni eins og ekkert sé.

Vafalítið er rétt hjá þingmanninum að hægt sé að gera það á styttri tíma en það stundum tekur í dag. Það er hárrétt.

Aftur að því hverjir eigi að ákveða. Hver á að ákveða ef það eru til að mynda þrír sjúklingar og eitt rými? Eiga einhverjir stakir læknar, t.d. sá sem er frekastur fyrir hönd síns sjúklings, að ákveða? Nei, það er ekki hægt og þess vegna höfum við færni- og heilsumatskerfið. Þá er hægt að sjá skilmerkilega hver þessara þriggja sjúklinga er í mestri þörf. Það er það sem þarf að liggja til grundvallar. Öðruvísi getum við ekki útdeilt gæðum af sanngirni.