150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:11]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Við erum að tala um forgangsröðun. Við erum að tala um einstaklinga sem fer ekki á milli mála að þurfa forgang, einstaklinga með parkinson, alzheimer og aðrar heilabilanir eða einstakling sem er svo illa farinn að það er alveg vitað mál að hann getur ekki hugsað um sig sjálfur og verður að fá akút þjónustu. Við erum ekki að tala um þá sem eiga að fara í greiningu. Við erum að tala um þá sem eru í forgangi, það sem skiptir fjölskyldur í landinu gífurlegu máli. Það er verið að buga heilu fjölskyldurnar með einstaklingum sem þær ráða ekki við að hugsa um. Við erum að tala um þannig tilfelli og að koma í veg fyrir keðjuverkandi áföll innan fjölskyldunnar. Það segir sig sjálft að það getur ekki verið eðlilegt, og hv. þingmaður hlýtur að vera sammála mér, að bjóða fjölskyldu upp á að vera með fárveikan einstakling, t.d. með heilabilun, og ætla þá að vera með eitthvert færnimat í gangi. Það þarf að bregðast fljótt við.

Svo er annað sem ég vil koma inn á. Hv. þingmaður talaði um kostnaðinn og hvernig ætti að kostnaðargreina vandann. Þá vil ég bara upplýsa hann og gera hann spenntan fyrir því að það er síðasta þingmálið af fimm velferðarpakkafrumvörpum okkar og þar munum við skýra vel og vendilega út hvernig við ætlum að fjármagna fjórar tillögur okkar af þeim fimm sem við erum með í forgangi. Þá verður mjög spennandi fyrir hann að fá að lesa hvernig við ætlum að fara að því að fjármagna þetta í heild sinni.