150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:13]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þegar um er að ræða einstaklinga sem þurfa augljóslega að flytjast á hjúkrunarheimili, eins og þingmaðurinn kemur inn á, gengur færni- og heilsumat hraðar fyrir sig. Það er þannig í dag. Lagaheimildin er þannig núna að þegar sjúklingur hefur legið inni á sjúkrahúsi í tiltekið langan tíma er færni- og heildarmatið gert inni á viðkomandi stofnun og afgreitt á stuttum tíma. Færni- og heilsumatsnefndirnar eru einmitt mjög meðvitaðar um það. Færni- og heilsumatsnefndirnar og færni- og heilsumatið greina hins vegar ekki sjúklinga, það er ekki hlutverk þeirra. Færni- og heilsumatið greinir ekki sjúkdóma hjá viðkomandi einstaklingum. Það forgangsraðar hins vegar sjúklingunum inn á hjúkrunarheimili á grundvelli greininga og upplýsinga sem liggja fyrir. Ef við ákveðum að taka einhvern tiltekinn hóp einstaklinga út fyrir það mengi er ég ekki viss um að hugur flutningsmanna tillögunnar nái raunverulega fram að ganga. Ég hlýt að ætla að hugur flutningsmanna standi til þess að þeir sem þurfa á hjúkrunarrýmum að halda komist sem hraðast og best í þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda annars vegar og hins vegar að ekki sé tafið ferlið á þeirri vegferð að nauðsynjalausu. Það má þó ekki verða á kostnað annarra sem kynnu að þurfa á sömu þjónustu að halda. Það væri hvorki sanngjarnt né málefnalegt.