150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:35]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta með verkaskiptinguna er nokkuð sem ég hef sannarlega velt mikið fyrir mér. Það er afar óheppilegt að ríki og sveitarfélög skuli í sífellu kasta verkefnunum á milli sín og að sú staða skuli í raun uppi að ef sveitarfélögin draga lappirnar í þjónustu við eldra fólk hafi það engar afleiðingar aðrar en þær að þá tekur ríkið við og þar með losna sveitarfélögin við kostnað. Það þarf að breyta þessu. Ég hef m.a. velt því upp að það gæti að einhverju leyti verið valkvætt fyrir sveitarfélag að taka við þjónustu við eldra fólk. Kannski gætu stærri sveitarfélögin gert það en kannski væri það svolítið flókið.

Varðandi dvalarrýmin sem hv. þingmaður kom inn á er ég ekki sannfærður um að leiðin sé sú að fjölga dvalarrýmum. Ég tel að þjónustuíbúðir þar sem fólk hefði sjálfstæða búsetu með mikilli þjónustu væru betri lausn en að búa aftur til í verulegum mæli það millistig sem dvalarrýmin eru. Það er sannarlega ákveðinn hópur eldri einstaklinga sem dvalarrými getur átt sérstaklega vel við. Færni- og heilsumat getur hjálpað við mat á því hvaða einstaklingar það eru.