150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:39]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir ræðuna og þátttöku í þessari umræðu. Ég verð að segja að ég er sammála henni að næstum öllu leyti. Takk fyrir þetta, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir. Það sem mig langar hins vegar að velta upp við hv. þingmann er það að kannski förum við að horfa upp á meiri skort á dvalarrýmum. Eins og mér skilst að staðan sé núna er hreinlega verið að breyta þó nokkru af dvalarrýmum í hjúkrunarrými út af þessari breyttu þörf en þörfin fyrir dvalarrými dettur ekki út þó að núna sé fólkið okkar að verða eldra. Við verðum eldri og þegar einstaklingurinn er loksins tilbúinn að fá breytt búsetuúrræði vegna veikinda er hann orðinn mjög veikur, þess vegna er náttúrlega fjölgun á hjúkrunarrýmum.

Hv. þingmaður talar gjarnan um heimabæ sinn og er mjög vel inni í öllum málum þar eðli málsins samkvæmt og það er sú þróun sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í. Er hún meðvituð um það hvernig við breytum dvalarrýmum í hjúkrunarrými án þess að önnur komi í staðinn? Við fækkum hreinlega dvalarrýmum á kostnað þess að við fjölgum hjúkrunarrýmum. Ég spyr hv. þingmann pínulítið út í það.