150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:43]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Tildrög þessarar þingsályktunartillögu eru ekki síst sá fráflæðisvandi sem við höfum verið að glíma við, Landspítali – háskólasjúkrahús sérstaklega. Þar erum við með fullorðna einstaklinga sem ekki er hægt að gera neitt frekar fyrir á spítalanum sjálfum. Fólkið er tilbúið að fara í eitthvert annað úrræði en það dýrasta, sem er það að vera á spítalanum, og þess vegna er svo gríðarleg þörf fyrir að rýmka til. Við töluðum um heimahjúkrun og ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra vill virkilega efla hana en allt kostar þetta fjármagn og til þess þurfum við náttúrlega einnig fagfólk sem virðist því miður vera af skornum skammti.

Það er dapurlegt að dvalarrýmum fækki. Ég hef fengið vitneskju um það úti á landi sem og annars staðar að biðin er orðin mjög löng. Við getum misst heilsuna allt í einu þó að við missum hana kannski ekki það mikið að við þurfum að fara í algjört utanumhald á hjúkrunarheimili heldur værum tilbúin að fá þá aðstoð sem býðst á dvalarheimili. Mér finnst þetta allt haldast í hendur. Fjölþættari úrræði og annað slíkt væri allt til bóta. Ég held að við getum gert betur en við gerum í dag.